Framtíð úrgangsmála í Reykjavík verður í brennidepli á kynningarfundi um aðgerðaáætlun í málaflokknum 23. júní á Kjarvalsstöðum kl. 20, þar sem leitað verður eftir áliti borgarbúa.
Reykjavíkurborg óskar eftir umsögnum um drög að aðgerðaáætlun í úrgangsmálum í Reykjavík og leitar eftir áliti borgarbúa, fyrirtækja og annarra áhugasamra. Áætlunin mun gilda fyrir árin 2015 – 2020 og er markmið hennar að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Sérstök áhersla er lögð á val íbúa á þjónustustigi í tillögunum.
Reykjavíkurborg heldur af þessu tilefni opinn fund á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn 23. júní kl. 20. Kynntar verða 42 aðgerðir, tíu leiðarljós og meginlínur um þjónustu grenndarstöðva sem verða til hliðsjónar við ákvarðanatöku um úrgangsmál í sveitarfélaginu. Allar ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara í áherslum borgarinnar til ársins 2020 í þessum mikilvæga málaflokki eru vel þegnar.
Kannanir sýna að borgarbúar er duglegir að flokka til endurvinnslu og vilja flokka enn meira. Kostnaður við umbúðir er hluti af kostnaði hverrar vöru en neytendur geta haft áhrif til að draga úr umbúðum með innkaupavenjum sínum. „Það eru mjög spennandi tímar framundan í þessum málflokki í Reykjavík,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg, „Reykjavíkurborg ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi með vistvænum lausnum og ábyrgri meðhöndlun úrgangs stofnana borgarinnar.“
Kynningarfundur á Kjarvalsstöðum
Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs opnar fundinn og varpar fram sýn á úrgangsmálin og val á þjónustustigi. Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar segir frá vinnunni við aðgerðaráætlunina og möguleikum í framtíðinni. Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi, samtök sem vilja auka vitundarvakningu um sóun matvæla, fjallar um hvað neytandinn getur gert sjálfur til að draga úr sóun. Fulltrúar í aðgerðarhóp kjörinna fulltrúa mun nefna valin atriði úr áætluninni.
Aðgerðirnar 42 verða aðgengilegar á fundinum og opnað fyrir umræðu og ábendingar.
Allir er velkomnir á fundinn og geta lagt sitt af mörkum með því að bregðast við tillögunum sem kynntar verða.