Frumlegar hugmyndir að Betri hverfum vel þegnar

Unnið við gróðursetningu við nýjan áningarstað í Breiðholti.

Unnið við gróðursetningu við nýjan áningarstað í Breiðholti.

Nú biður Reykjavíkurborg íbúa í fjórða sinn um að leggja til hugmyndir að verkefnum í hverfum borgarinnar. Kosið verður á milli hugmynda borgarbúa í hverfakosningum á næsta ári. Á síðustu þremur árum hafa íbúar lagt borginni til 1.350 hugmyndir og hafa yfir 300 þeirra þegar verið framkvæmdar eftir úrslit bindandi hverfakosninga.

Íbúar geta farið inn á samráðsvefinn betrireykjavik.is frá og með 8.október og lagt þar inn hugmyndir sem fegra umhverfið og bæta ýmsa aðstöðu í hverfunum. Opið verður fyrir innsetningu hugmynda til 7. nóvember næstkomandi.

Reykjavíkurborg mun leggja 300 milljónir króna til hverfapotta á næsta ári. Þessir peningar fara í að framkvæma hugmyndir sem borgarbúar leggja sjálfir til. Að auki sinnir borgin ýmsum nauðsynlegum viðhaldsverkefnum í hverfunum.

Yfir þrettán hundruð hugmyndir

Á síðustu þremur árum hafa íbúar komið með 1.350 hugmyndir að verkefnum í borgarhverfunum. Alls hefur borgin framkvæmt yfir 300 hugmyndir sem íbúar hafa komið með og forgangsraðað í íbúakosningum síðastliðin þrjú ár.

Nú er verið að leggja lokahönd á 78 verkefni sem kosin voru á þessu ári í hverfum borgarinnar. Nokkur stór verkefni eru þó enn á undirbúningsstigi.

Verkefnin eru afar fjölbreytt og stuðla nær öll að því að bæta umhverfis- og lífsgæði borgarbúa.

Frumlegar hugmyndir

Leikvellir hafa verið teknir í gegn. Nýir göngu- og hjólastígar hafa verið lagðir og gangstéttir endurnýjaðar. Sleðabrekkur hafa verið búnar til og sléttaðar, skautasvell á Rauðavatni upplýst, hringtorg sett upp, frisbígolfvellir búnir til, áningarstaðir gerðir, vatnshanar settir upp og tré og runnar gróðursettir víða um borgina. Þá hafa margs konar upplýsingaskilti verið sett upp og lýsing bætt víða við leikskóla, göngustíga og víðar. Meðal frumlegra hugmynda borgarbúa sem framkvæmdar hafa verið á síðustu árum eru stigi niður í fjöruna á Eiðisgranda sem auðveldar fólki aðgengi að sjávarsíðunni þar, aflraunasteinar við Ægissíðu og ævintýragarður í Gufunesi sem er á undirbúningsstigi.

Íbúakosningar verða haldnar í fjórða sinn með sama sniði og áður á næsta ári. Þá verður kosið um þær hugmyndir sem fagteymi Reykjavíkurborgar og hverfisráð hafa valið úr innsendum hugmyndum borgarbúa.

Gott tilefni er til að hefja söfnun hugmynda frá íbúum nú í október því fjölmörg sveitarfélög í Evrópu halda í heiðri lýðræðisviku í þessum mánuði.

Reykjavíkurborg hvetur íbúa í Reykjavík til að skoða hverfin sín gaumgæfilega og koma með hugmyndir sem gera þau enn betri.

Hér er hægt að setja inn hugmynd

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.