Borgarráð samþykkti í morgun að allir framhaldsskólanemar fái aðgang að öllum sundstöðum og menningarstofnunum Reykjavíkurborgar á meðan verkfall framhaldsskólakennara stendur. Ekki verður nein tímasetning á aðgangi og þurfa nemendur einungis að framvísa skólaskírteini. Reykjavíkurborg rekur 7 sundlaugar og nánari upplýsingar um opnunartíma má nálgast á heimasíðu:http://reykjavik.is/sundlaugar.
Þá rekur borgin 8 söfn; þau eru Listasafn Reykjavíkur (Hafnarhús, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn), Árbæjarsafn, Landnámssýningin í Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Menningarmiðstöðin Gerðuberg, en þegar er gjaldfrjáls aðgangur að tveimur síðasttöldu. Borgarbókasafn Reykjavíkur var undanskilið í tillögu borgarráðs enda er þar gjaldfrjáls aðgangur þótt bókasafnsskírteini, sem gildir í heilt ár, kosti 1700 kr. fyrir 18 ára og eldri.
Nemendur eru hvattir til að nýta tækifærið og njóta þess að geta tekið sundsprett og kynnt sér menninguna í borginni sér að kostnaðarlausu.