Nýtt tímabil Frístundakortsins á vegum íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar hefst 1. janúar. Frístundakortið tryggir hverju barni og unglingi í Reykjavík á aldrinum 6 til 18 ára styrk að upphæð 35 þúsund krónur til ráðstöfunar á árinu 2015. Frístundakortið hækkar úr 30 þúsund krónum eða um 16,7% á milli ára. Fimmtán þúsund börn nýttu Frístundakortið hjá 200 félögum.
Alls voru tæplega 16 þúsund börn skráð á námskeið hjá þeim 200 félögum sem aðild eiga að kerfinu og af þeim var ráðstafað styrk vegna rúmlega fimmtán þúsund barna árið 2014.
Nýting á Frístundakortinu hefur aukist ár frá ári síðan það var tekið í notkun 2007. Mest er notkun þess er í aldurshópnum 6 – 12 ára en rúm 95% barna á þeim aldri nýttu sér styrkinn. Í aldurshópnum 13 – 15 ára var nýtingin um 87%. Minnst er nýtingin í aldurshópnum 16 – 18 ára en 55% ungmenna á þeim aldri nýttu sér Frístundakortið.
Meginmarkmið með Frístundakortinu er að auka jöfnuð meðal barna og unglinga í borginni varðandi þátttöku í skipulögðu félags,- menningar- og íþróttastarfi. Grannt er fylgst með því að auknir styrkir til barna leiði ekki til óeðlilegra hækkana á gjaldskrám félaganna. Árið 2015 verður gert sérstakt átak til að ná til þeirra barna og unglinga sem síst taka þátt í skipulegu félagsstarfi og nýta sér Frístundakortið.
ÍTR hefur nýverið tekið í gagnið leitar- og upplýsingavefinn fristund.is. Þar má finna upplýsingar um nánast allt íþrótta-, félags- og tómstundastarf sem boðið er upp á í borginni. Einnig er aukin upplýsingamiðlun til foreldra um framboð á frístundastarfi fyrir grunnskólabörn með svokallaðri frístundagátt í Mentor.