Nemendum í 4. bekk Rimaskóla boðið í Hörpuna
Í tilefni af Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2014 var öllum 1400 nemendum fjórðu bekkja í borginni boðið að taka þátt í opnun hátíðarinnar í Hörpu.
Allir nemendur í 4-ÁÝÓ, 4-KÞ og 4-SHB ásamt kennurum voru sóttir heim að dyrum í Rimaskóla og þeim ekið á staðinn. Rimaskólakrakkarnir voru auðkenndir með appelsínugulum hárböndum sem fóru þeim einstaklega vel. Krakkarnir höfðu undirbúið sig sérstaklega fyrir tilefnið og æft lagið “112” sem allur skarinn í salnum flutti með Dr. Gunna, Friðriki Dór og Möggu Stínu.
Boðið var upp á glæsilega klukkustundar menningardagskrá og skapaðist “dúndur stemmning” í salnum. Krakkarnir okkar, sem sátu á öðrum svölum Eldborgar, voru alveg til fyrirmyndar í Hörpunni og kunnu vel að meta þetta góða boð. (HÁ)
Nemendur 7. bekkjar sýndu Hans klaufa á dagskrá Barnamenningarhátíðar
Ævintýri H.C. Andersen um Hans klaufa var framlag Rimaskóla til Barnamenningarhátíðar í Reykjavík 2014. Nemendur 7. bekkjar buðu upp á tvær leiksýningar á Hans klaufa í hátíðarsal skólans og var nemendum úr grunn-og leikskólum Grafarvogs boðið ókeypis að sjá nemendur 7. bekkjar leika þetta bráðskemmtilega leikrit. Mjög vel tókst til með sýningarnar og áhorfendur fylltu sal Rimaskóla á báðum sýningunum. Það var Eggert Kaaber leiklistarkennari Rimaskóla sem leikstýrði krökkunum og fékk aðstoð frá list-og verkmenntakennurum skólans. Áhorfendur sem komu gangandi í Rimaskóla skemmtu sér vel og lýstu ánægju sinni með leiksýninguna. Fyrir leiksýningarnar fékk Rimaskóli styrk frá Barnamenningarhátíð sem kom sér að góðum notum. (HÁ)
Glæsileg frammistaða 6. bekkjar á grunnskólamóti Fjölnis í körfubolta
Körfuknattleiksdeild Fjölnis efndi til grunnskólamóts fyrir 6. bekki skólanna í Grafarvogi og Kjalarnesi í fyrsta sinn. Góð þátttaka var í mótinu og flest lið frá Rimaskóla eða fjögur talsins.
Frammistaða 6. bekkinga ER og EHE var í einu orði sagt glæsileg og kepptu lið skólans til úrslita bæði í drengja-og stúlknaflokki. Stúlkurnar sem voru ósigrandi í undanriðli töpuðu fyrir Kelduskólastúlkum í hreinum úrslitaleik en í drengjaflokki reyndust Rimaskólapiltar I í algjörum sérflokki og unnu alla leiki sína örugglega. Þeir fengu vart á sig körfu í allri keppninni. Rimaskóli drengja II vann þrjá af fjórum leikjum sínum og frammistaða þeirra ekki síðri en liðs I. Erla Ragnarsdóttir var liðsstjóri stúlknanna og Helgi Árnason skólastjóri liðsstjóri drengjanna. Þau voru bæði afar stolt yfir framkomu og frammistöðu sinna liða. Í sigurliði Rimaskóla I voru f.v. Viktor Elvarsson, Hafsteinn, Aron Már og Gabríel Douane í 6-ER og Kristall Máni og Kacper í 6-EHE. (HÁ)
Með kveðju
Helgi Árnason
Skólastjóri Rimaskóla
GSM 6648320