Fjölniskonur mættu Keflavík á heimavelli í gær í næstsíðustu umferð A-riðils 1. deildarinnar í knattspyrnu og lauk leiknum með öruggum 5-2 sigri okkar kvenna.
Fjölnir byrjaði vel og Íris skoraði með skalla eftir hornspyrnu strax á 12. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar kom Erla liðinu í 2-0 með skoti af stuttu færi eftir frábært spil. Esther gerði svo þriðja markið rétt fyrir leikhlé með frábærri vippu úr teignum eftir góðan undirbúning og staðan vænleg að loknum fyrri hálfleik.
Seinni háflleikurinn fór vel af stað hjá Fjölni þegar Esther bætti við fjórða markinu af stuttu færi. Keflavík minnkaði muninn í 4-1 á 68. mínútu og bætti svo við öðru marki 82. mínútu en það kom úr vítaspyrnu eftir að Helena markvörður braut á sóknarmanni Keflavíkur og var hún stálheppin að fá ekki rautt spjald í kjölfarið. Fjölnir átti þó síðasta orðið þegar Esther komst ein í gegn, lék á markvörðinn og innsiglaði 5-2 sigur Fjölnis.
“Þetta var góður leikur hjá okkur í dag, spiluðum vel og baráttan var góð. Keflavíkurliðið er ungt og efnilegt. Það var fleira en góður sigur sem var gleðilegt í leiknum, María kom inná undir lok leiksins og lék þar með sinn fyrsta leik á tímabilinu og er því komin til baka eftir erfið meiðsli. Nú er einn erfiður leikur eftir í riðlinum gegn Hömrunum á Akureyri og við þurfum að klára hann með glans og svo er úrslitakeppnin handan hornsins.” –Sagði Siggi þjálfari að leik loknum.
Liðið; Helena, Elvý, Íris, Eyrún (Oddný 49.mín), Kristjana (Jódís 82.mín), Ásta, Theresa, Lovísa (Aníta 59.mín), Esther, Hrefna (María 82.mín), Erla (Kamilla 43.mín). Bjarklind og Regína voru einnig á bekknum en komu ekki inn á.
—
Fjölnisliðið er efst í riðlinum með 40 stig og hefur sex stiga forskot á HK/Víking sem á þó leik til góða en ljóst er að þessi tvö lið fara í úrslitakeppnina um sæti í Pepsí-deild á næstu leiktíð. Fjölni nægir eitt stig gegn Hömrunum í lokaumferðinni til að tryggja sér efsta sætið og mætir liðið þá annað hvort Þrótti Reykjavík eða Hetti í umspilinu en HK/Víkingur etur þá kappi við KR sem þegar hefur tryggt sér efsta sæti B-riðils. Þau lið sem vinna þær viðureignir mætast svo í úrslitaleik deildarinnar og spila jafnframt bæði á meðal þeirra bestu á næstu leiktíð!