Reykjavíkurborg og Ungmennafélagið Fjölnir í Grafarvogi undirrituðu nýjan samning í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Samkvæmt honum fær Fjölnir aðstöðu í nýju fimleikahúsi sem fasteignafélagið Reginn mun byggja við Egilshöll. Þá mun Fjölnir áfram reka íþróttahús og velli við Dalhús í Grafarvogi.
Mikill uppgangur hefur verið í íþróttastarfi Fjölnis síðustu árin, segir í tilkynningu frá borginni. Fjölnir hefur verið með íþróttaaðstöðu við Dalhús og í Egilshöll. Þar hefur félagið haft knattspyrnuæfingar á inni- og útivöllum, frjálsíþróttaæfingar inni, bardagaíþróttir, fimleikaæfingar í tveimur bráðabirgðasölum auk skrifstofu. Þar að auki hefur félagið eitt stórt íþróttahús í Grafarvogi til æfinga og keppni í hand- og körfuknattleik og annað minna íþróttahús í Rimaskóla til æfinga.
Mestu tíðindin í samkomulaginu eru þau að Reginn hyggst byggja nýtt fimleikahús við hlið Egilshallar fyrir fimleikadeild Fjölnis. Reykjavíkurborg mun leigja húsið til afnota fyrir Fjölni en jafnframt láta af hendi núverandi aðstöðu fyrir fimleika í Egilshöll. Árlegt leigugjald vegna nýrrar aðstöðu verður rúmlega 50 milljónir króna til viðbótar við núverandi leigusamning við Reginn vegna íþróttaaðstöðu í Egilshöll. Áætlað er að fimleikahúsið verið tekið í notkun veturinn 2015 en það verður 2.250 fermetrar að stærð og tengist núverandi húsnæði.
Samkvæmt samningnum mun Fjölnir reka áfram íþróttahús og velli við Dalhús í Grafarvogi. Þá verða teknar upp viðræður við Borgarholtsskóla um nýtingu íþróttamannvirkja í Grafarvogi fyrir nemendur skólans og fyrir afreksíþróttasvið skólans.