Fjölnir beið sinn fyrsta ósigur í Pepsí-deild karla í knattspyrnu þegar liðið laut í gras, 0-1, gegn FH á Fjölnisvelli. Það var Atli Guðnason sem skoraði eina mark leiksins á 17. mínútu. Aðstæður til knattspyrnuiðkana voru frábærar, logn, heiðskírt og 17 stiga hiti.
Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleik en Fjölnismenn voru beittari í leik sínum eftir sem á síðari hálfleikinn leið. Guðmundur Böðvar Guðjónsson komst næst því að jafna metin þegar hann átti fast skot í stöngina.
,,Það er alltaf sárt að tapa leik. Við náðum ekki alveg nógu góðu spili á köflum en það komu ágætir kaflar í sitt hvorum hálfleiknum sem við hefðum gjarnan mátt nýta betur. Svona heilt yfir var þetta ekki alveg nógu gott en hafa verður í huga að við vorum að leika gegn frábæru liði, samt er alltaf súrt að tapa. Við getum lært ýmislegt frá þessum leik og við mætum einbeittir til leiksins á móti Fram um næstu helgi. Það er nóg eftir af þessu móti, þetta er bara rétt að byrja,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnismanna, eftir leikinn gegn FH í kvöld.