Ég hef fulla trú á mínum mönnum

Ágúst feature imageFjölnismenn unnu glæstan útisigur á Grindvíkingum í gærkvöldi og skutust  fyrir vikið á topp 1. deildar karla í knattspyrnu. Tveimur umferðum er ólokið og eiga Fjölnismenn eftir að leika við Selfoss á heimavelli og Leikni á útivelli í lokaumferðinni. Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, var að vonum ánægður með sigurinn á Grindvíkingum og sagði að liðið hefði verið að leika einn sinn besta leik á tímabilinu.

Fjölnir leikur við Selfoss á laugardaginn kemur á heimavelli og 21. september fer fram lokaumferðinni og þá leikur Fjölnir við Leikni í Breiðholtinu.

,,Þetta var sérlega sætur sigur og kom okkur sjálfum bara á óvart. Þetta var ótrúlegur sigur og liðið í heild sinni að leika vel og uppskeran var eftir því. Liðið er búið að leika mjög vel í seinni  hluta mótsins eftir smá eftirkipp gegn Tindastóli og Þrótti. Við erum með gott lið og þurfum að mæta með rétt hugarfar í hvern einasta leik, annars er okkur refsað.  Við lítum vel út eins og staðan er á þessum tímapunkti og vonandi verðum við áfram á þessari braut uns yfir lýkur,“ sagði Ágúst  Þór Gylfason í samtali við Grafarvogsbúa.is

Ágúst Þór sagði að eins og staðan væri nú væri framhaldið alfarið í þeirra höndum. Hann sagði það lítið eftir af mótinu að núna væri ekkert eftir nema að klára dæmið.

,,Ég hef fulla trú á mínum mönnum. Við vorum með tvo í leikbanni í gærkvöldi og það virtist ekki  koma að sök, þar kom maður í manns stað, sem sýnir breiddina sem við höfum yfir að ráða. Við eigum góðan og samstilltan hóp sem er tilbúinn að vinna vel. Það kom okkur sjálfum á óvart í gærkvöldi hvað við vorum ótrúlega tilbúnir. Það er alveg ljóst að leikirnir sem eftir eru verða erfiðir en við mætum til leiks og ætlum að gera okkur besta.  Það eru þrjú lið í einum hnapp og það má ekkert út af bregða hjá okkur. Það hefur verið markmið hjá okkur í sumar að leika á meðal þeirra bestu á næsta tímabili. Þrátt fyrir erfiða byrjun breyttust þau markmið aldrei. Bættum okkur leik smám saman og erum núna í þeirri stöðu að málið er alfarið í okkar höndum,“ sagði Ágúst Þór.

Þjálfarinn sagði að nú þyrfti Fjölnir á öllum hugsanlegum stuðningi að halda í leikjunum sem eftir væru í deildinni.

,,Ég hvet Grafarvogsbúa að koma og styðja vel við bakið á liðinu í þeirri baráttu sem eftir er. Við höldum áfram markmiðum okkar, æfum vel, en núna er það undir fólkinu í hverfinu að mæta og styðja strákana,“ sagði Ágúst Þór Gylfason þjálfari Fjölnis.

Um höfundinn

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.