Fréttir af Bryggjuhverfinu Grafarvogi
Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um Bryggjuhverfið, tilurð þess, uppbyggingu og framtíð þess.
Árið 1992 var gerður samningur milli Björgunar og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhverfis á uppfyllingu austan athafnasvæðis Björgunar í Grafarvogi. Björgun fékk Björn Ólafs arkitekt i París til að annast deiliskipulag og að hluta til hönnun húsa í hverfinu. Fyrstu húsin í Bryggjuhverfinu risu árið 1998. Í skipulaginu er mikið lagt upp úr innbyrðis samræmi á yfirbragði hverfisins og að nýta nálægðina við hafið til útivistar og afþreyingar. Gerð var smábátahöfn þar sem íbúum og öðrum er búin aðstaða til frístundasiglinga og hafa margir nýtt sér þá aðstöðu. Segja má að með uppbyggingu Bryggjuhverfisins í Grafarvogi hafi Björgun unnið ákveðið frumkvöðlastarf.
Hverfið hefur þó að ýmsu leyti liðið fyrir nálægð sína við Björgun. Þegar uppbygging hófst var gert ráð fyrir að starfsemi félagsins yrði fljótlega flutt annað og hverfið mundi í framhaldin stækka til vesturs. Umræður um flutning fyrirtækisins hafa lengi staðið yfir og nú hyllir loks undir lausn á því máli.
Árið 2008 var samhliða breytingum á vinnslusvæði Björgunar ráðist í viðamiklar framkvæmdir til að afmarka betur starfsemi félagsins og íbúðahverfisins, með það að markmiði að draga sem mest úr óþægindum sem íbúar Bryggjuhverfisins verða fyrir vegna starfseminnar við Sævarhöfða. Jafnframt var gerð tillaga að breyttu deiliskipulagi sem hefur það að markmiði að ljúka uppbyggingu fyrsta áfanga hverfisins.
Það var fjallað um nýjustu tillögur í Morgunblaðinu í dag, þar sem sagt er frá því „jákvæð afstaða og samþykktir um að fullgera samninga um rýmingu hverfisins“
Hér er fréttin sem Sigtryggur skrifa.
Fyrir liggur jákvæð afstaða og samþykktir stjórnar Björgunar ehf. og stjórnar Faxaflóahafna sf. um að fullgera samninga um rýmingu Björgunar af lóðinni Sævarhöfða 33. Þetta var kynnt á fundi stjórnar Faxaflóahafna í gær. Samkvæmt samkomulaginu fær Björgun að vera með starfsemi á svæðinu fram í maí árið 2019. Þar er m.a. geymt byggingarefni sem skip félagsins dæla af hafsbotni. Íbúar í Bryggjuhverfi hafa þrýst á það í mörg ár að starfsemi fyrirtækisins verði flutti af svæðinu, enda hafi sandurinn fokið yfir hverfið.Fram kemur í minnisblaði Gísla Gíslasonar hafnarstjóra að samningarnir byggjast á því að leysa úr áratuga löngum ágreiningi um gildi samninga frá árunum 1968 og 1994 og fleiri atriði. Efnisatriði samninganna séu í meginatriðum án ágreinings milli aðila, en unnið sé að frágangi orðalags og verklýsingu.
Höfnin kaupir húseignir og laust efni
Í samningunum felst að Faxaflóahafnir sf. kaupa þrjár húseignir, sem eru á lóðinni, af Björgun ehf., alls liðlega 1.600 fermetrar, á 195 milljónir króna. Faxaflóahafnir kaupa laust efni á lóð Björgunar ehf., alls 236.000 rúmmetra, enda nýtist það efni í 1. áfanga landfyllingar utan Sævarhöfða og farghauga. Kaupverð er alls 145 milljónir. Björgun mun svo annast gerð 25.000 fermetra landfyllingar sem 1. áfanga landfyllinga samkvæmt aðalskipulagi. Kostnaður samkvæmt verksamningi þar að lútandi er 151 milljón. Verklok eru miðuð við lok árs 2019.Alls fela samningar við Björgun í sér útgjöld að fjárhæð um 553 milljónir króna fyrir Faxaflóahafnir, sem skiptast að stærstum hluta á árin 2016 og 2017 vegna húsakaupa og efniskaupa.
Í fyrirliggjandi drögum að samningum er ekkert fjallað um hugsanlega framtíðarstarfsaðstöðu Björgunar. Faxaflóahafnir höfðu boðið fram svæði á Grundartanga undir starfsemina, sem ekki þótti álitlegt af hálfu Björgunar.