,,Lífsreynsla sem ég vil aldrei lenda í aftur“
Enginn slasaðist alvarlega þegar rúta á vegum Skákakademíu Reykjavíkur og Skákdeildar Fjölnis valt á hliðina nærri Hótel Glym í Hvalfirði sl. laugardag. 30 börn og þrír fullorðnir voru í rútunni sem var á leið í Vatnaskóg þar sem Skákdeild Fjölnis og Skákakademían eru með skákbúðir fyrir börn á grunnskólaaldri. Fjórir voru fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrahús í Reykjavík en aðrir sluppu að mestu við meiðsli.
Helgi Árnason, skólastjóri í Rimaskóli og skákfrömuður, var fararstjóri með krökkunum á ferðalaginu. Helgi var einn af þeim sem slasaðist í þessu slysi og segir þetta hafa verið mikla lífsreynslu.
,,Krakkarnir voru sérlega yfirveguð og þau flest öll spennt í öryggisbelti. Þau slösuðust minna en maður hefði getað óttast en allt gerðist þetta mjög hratt. Við áttuðum okkur mjög fljótlega á því að börnin sluppu að mestu. Það kom engin taugaveiklun upp og engin reyndist sem betur fer vera stórslasaður. Mæðgin í rútunni fengu slæma byltu en þau voru ekki heldur í beltum og þau hentust eins og ég þvert yfir rútuna. Ég meiddist á hné og á brjóstkassa en ekkert alvarlega. Þetta hefði getað farið miklu verr ef maður hefði fengið höfuðhögg. Þetta minnir mann á að vera alltaf með beltin spennt hvort sem um lengri eða skemmri leiðir er að fara. Við komuna í Rimaskóli tóku foreldrar og Rauði Krossinn á móti hópnum og kynnti krökkunum þá aðstoð sem í boði var. Allir fengu síðan hressingu en það er lífsreynsla að lenda í atburði sem þessum og kennir manni ýmislegt. Þetta er ekki þægilegt og ég vil aldrei lenda í þessu aftur. Það fór betur en á horfðist,“ sagði Helgi Árnason skólastjóri í Rimaskóla.