EKKI MEIR – fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála
Æskulýðsvettvangurinn (ÆV), samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefur frá haustinu 2012 staðið fyrir sextán fræðsluerindum um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála víðs vegar um landið. Tilgangur og markmið með fræðsluerindinu er að vekja fólk til enn frekari vitundar um mál af þessu tagi og mikilvægi þess að vera vakandi fyrir einelti og annarri óæskilegri hegðun.
Á fræðsluerindinu flytur Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur, erindi byggt á bók sinni EKKI MEIR. Bókin er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Útgefandi er Skólavefurinn ehf. Meðal efnisþátta eru: Staðarmenningin og starfsfólkið. Forvarnir gegn einelti á vinnustöðum, skólum og í félögum. Fjallað er um birtingamyndir eineltis og helstu orsakir, aðstæður og persónueinkenni þolenda og gerenda. Í fræðsluerindinu lýsir Kolbrún vinnuferli sem einkennist af markvissum og faglegum vinnubrögðum frá því að mál er tilkynnt og þar til því er lokað. Farið er yfir helstu ástæður þess að eineltismál koma upp og festa sig í sessi.
Næstu erindi fara fram
10. okt. kl. 19.30 – 21.00 í Skátamiðstöðinni, Hraunbær 123, 110 Árbær.
16. okt. kl. 19.30 – 21.00 í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK, Holtavegi 28, 104 Reykjavík.
22. okt. kl. 19.30 – 21.00 hjá Björgunarsveitinni Ársæli, Grandagarði 1, 101 Reykjavík.
29. okt. kl. 19.30 – 21.00 í Stjörnuheimilinu við Ásgarð, 210 Garðabær.
6. nóv. kl. 19.30 – 21.00 í Smáranum íþróttahús Breiðabliks, Dalsmára 5, 201 Kópavogi.
Á erindunum verður aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltisveggspjaldi.
Ekki -Meir-Fræðsluerindi um einelti....