Á fréttamannafundi í Rimaskóla í Grafarvogi í dag kynnti borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Halldór Halldórsson og aðrir frambjóðendur flokksins stefnu sína fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þar sat Halldór Halldórsson fyrir svörum ásamt frambjóðendum flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem verða 31. maí.
Á fundinum boðaði Halldór Halldórsson m.a. skattalækkun til handa borgarbúum. Betri rekstur skapar svigrúm til lækkunar skatta sem skila sér í auknu ráðstöfunarfé fjölskyldna. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík ætlar að endurskoða gjaldskrár með það fyrir augum að sanngjörn gjöld séu á grunnþjónustu.
Í stefnuskrá flokksins kemur fram að foreldrar hafi frelsi til að velja það sem börnunum er fyrir bestu hvort sem það er dagforeldri, ungbarnaleikskóli eða t.d. nærfjölskyldan. Í þeim tilgangi ætlar flokkurinn að koma á þjónustutryggingu til að dekka tímabilið fá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst á leikskóla.
Þá kemur fram í stefnuskránni að höfuðborgarbúar eiga að njóta hagkvæmni stærðarinnar í rekstri sveitarfélagsins sem skilar sér í auknu ráðstöfunarfé fjölskyldna. Flokkurinn ætlar að draga úr álögum á fjölskyldur og lækka skatta á kjörtímabilinu og ætlar ennfremur að endurskoða gjaldskrár með það fyrir augum að sanngjörn gjöld séu á grunnþjónustu
Í stefnuskrá flokksins kemur skýrt fram að flokkurinn vill ekki að Reykjavíkurflugvöllur fari til Keflavíkur. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skilar af sér á þessu ári. Flokkurinn ætlar að endurskoða leiðakerfi Strætó, finna staðsetningu fyrir skiptistöð sem mun fækka skiptingum. Stefnan er ennfremur að lengja þjónustutíma Strætó. Í íþrótta- og tómstundamálum ætlar flokkurinn að hækka frístundastyrkinn upp í 40 þúsund krónur með hverju barni strax í upphafi kjörtímabilsins.
Einnig að auka þjónustuna í sundlaugum Reykjavíkur með því að lengja aftur opnunartímann, færa aldursmörk þeirra sem njóta fríðinda vegna aldurs aftur niður úr 70 árum í 67 ára. Jafnframt vill flokkurinn hraða uppbyggingu sundlauga í Úlfársdal og í Fossvogi.
Stefnuskjal flokksins má finna í heild sinni á vefsíðunni www.xdreykjavik.is ásamt ýmsum öðrum upplýsingum um frambjóðendur flokksins. Sjá nánar á www.xd.is