Hjólreiðaviðburðurinn Tour of Reykjavik verður haldinn í fyrsta sinn sunnudaginn 11.september næstkomandi. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur í samvinnu við hjólreiðafélögin í Reykjavík sem hefur veg og vanda að skipulagningunni.
Tour of Reykjavík býður upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum en keppnin sjálf er haldin í Laugardalnum og ýmist hjólað alla leið að Þingvallavatni eða styttri hringi í Laugardal og miðborginni. Sérstök barnabraut verður fyrir yngstu kynslóðina þar sem sjálfur Íþróttaálfurinn sér um upphitun.
Víðtækar götulokanir og truflun á umferð verða vegna Tour of Reykjavik sunnudaginn 11.september. Á kortinu má sjá nákvæmlega hvaða götur eru lokaðar á hvaða tíma. Ýta þarf á stopp- og þríhyrningamerkin til að fá nánari upplýsingar um hverja götu fyrir sig.
Aðallega er um að ræða lokanir á götum frá Laugardal að Hörpu en einnig verður Hafravatnsvegur, Nesjavallarleið og Grafningur lokaður í 1-2 klukkustundir fyrir hádegi.
Bendum á að íbúar í Fossvogi geta keyrt austur Bústaðaveg (í átt að Sprengisandi) en ekki í vestur. Íbúar í Smáíbúðahverfi geta ekki keyrt Bústaðaveg þar sem hann er lokaður til vesturs (í átt að Landspítala) en þeir geta notað Miklubraut og Grensásveg til að komast til og frá heimilum sínum. Íbúum í Miðbæ og Hlíðum er bent á að Miklabraut er alltaf opin og eiga allir að geta komist þangað sem þeir þurfa með smá krókaleiðum.
Sérstök athygli er vakin á því að þó Sæbraut sé lokuð fyrir framan Hörpu er hægt að komast í bílakjallara Hörpu ef keyrt er eftir Skúlagötu. Starfsmenn verða þar við gatnamótin og hleypa umferð yfir þegar engin hjól eru nálægt.
Skráning í Tour of Reykjavik er í fullum gangi en netskráningu lýkur í dag föstudaginn 9.september kl.23:00.