Viðar Ari Jónsson, sem lék einstaklega vel með Fjölni á síðasta tímabili, mun í næstu viku fara á reynslu til norska úrvalsdeildarliðsins Brann í Bergen. Viðar Ari hefur vakið verðskulduga athygli erlendra liða fyrir framgöngu sína með Grafarvogsliðinu og ennfremur með íslenska A-landsliðinu í síðustu leikjum þess.
Viðar Ari, sem er 22 ára að aldri, hefur sjálfur mikinn áhuga á að komast í atvinnumennskuna. Nokkrir íslenskir leikmenn hafa leikið með Brann í gegnum tíðina við góðan orðstír. Brann hafnaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tekur þátt í undankeppni Evrópudeildarinnar í haust.
Viðar Ari heldur utan til Bergen 28. febrúar og verður við æfingar hjá Brann til 5. mars.