Team Rynkeby er samevrópskt góðgerðarverkefni sem fagnar 20 ára afmæli á árinu 2021. Verkefnið felst í því að þátttakendur þess hjóla frá Danmörku til Parísar til styrktar börnum með alvarlega sjúkdóma.Árið 2017 tók íslenskt lið þátt í verkefninu í fyrsta sinn. Í ár eru þátttökuliðin 59 með rúmlega 2300 hjólurum og 440 manna aðstoðarliði. Þátttökulið eru frá öllum Norðurlöndunum, Þýskalandi og Sviss ásamt einu samevrópsku liði. Markmiðið er það sama hjá öllum liðunum sem er að safna styrkjum sem allir fara til barna með alvarlega sjúkdóma í hverju landi fyrir sig.
Allir þátttakendur bæði hjólarar og þjónustulið greiða sjálfir allan kostnað, bæði fyrir þátttöku og búnað s.s. hjól og liðsföt, þannig að allt sem safnast rennur óskipt í söfnun liðsins.
Markmiðið að safna fyrir börn með alvarlega sjúkdóma
Til að taka þátt í verkefninu þarf fólk að sækja um með formlegum hætti á vefsíðu www.teamrynkebyisland.is í síðasta lagi 29. ágúst n.k. Í framhaldinu er liðið valið og skipað í byrjun september ár hvert. Hægt er að sækja um sem hjólari eða í aðstoðarliðinu. Þau sem valin eru í liðið hefjast síðan handa við að safna styrkjum t.d. hjá fyrirtækjum og stofunum og vinna að verkefninu á ýmsan annan hátt.
Íslenska liðið
Íslenska liðið er skipað 38 hjólurum og 11 í aðstoðarliði. Eitt af markmiðum Team Rynkeby verkefnisins er að liðið sé byggt upp af fólki úr sem flestum atvinnugreinum, á öllum aldri og sem jafnastri skipting milli kvenna og karla.
Miklar æfingar að baki hjá liðsmönnum
Æfingar hefjast fljótlega eftir að nýtt lið er valið að hausti. Byrjað er að æfa saman úti en síðan taka við æfingar inni t.d. á trainerum. Þegar líður að vori er bætt við útiæfingum m.a. til að æfa liðið saman í hóp.
Hápunkturinn er síðan að hjóla frá Danmörku til Parísar um 1300 km leið á átta dögum í júlí ár hvert. Það getur tekið á að sitja í hjólahnakknum í um 8 klst. en lengsta dagleiðin er rúmlega 200 km. Góð þjálfun fyrir ferðina er því lykilatriði.
Íslensk fyrirtæki stutt myndarlega við verkefnið
Fjölmörg fyrirtæki hafa stutt við bakið á verkefninu þessi fimm ár sem íslenskt lið hefur verið starfandi. Árið 2020 söfnuðust rúmlega 25 milljónir en allir styrkir sem safnast hafa hafa farið til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Alls hafa safnast rúmlega 75 milljónir frá upphafi en Team Rynkeby er lang stærsti styktaraðili SKB.
Íslandsferð 2021
Ef allt væri eðlilegt væri liðið að undirbúa sig að leggja af stað frá Danmörku til Parísar. Hinsvegar var ákveðið að hætta við ferðina hjá öllum 59 liðunum þetta árið eins og í fyrra vegna Covid-19. Þess í stað mun liðið hjóla innanlands líkt og í fyrra þegar hringurinn var farinn. Ferðin í ár hefst með því að taka þátt í KIA Gullhringnum á Selfossi laugardaginn 10. júlí n.k. Þar verður leiðin ,,Flóaveitan‘‘ hjóluð‘‘. Næstu daga mun liðið hjóla og keyra gegnum Vesturland og til Vestfjarða (sjá leiðarlýsingu neðar). Ferðin endar síðan í Reykjavík laugardaginn 17. júlí eftir að hafa hjólað um 825 kílómetra hinsvegar eru hæðarmetrnir töluvert meiri en í ferð liðsins um Evrópu
Hægt að sjá live hvar liðið er statt á: www.team-rynkeby.com/LIVE
Hægt er að fylgjast með Team Rynkeby á Facebook
Ítarlegar leiðir liðsins má sjá hér