Valur vann sigur á Fjölni í hreint út sagt ótrúlegum leik á Vodafonevellinum í kvöld. Lauk leiknum með 4:3-sigri Vals eftir að liðið komst í 3:0-forystu en þannig var staðan í hálfleik. Fjölnismenn bárust sem ljón í síðari hálfleik og tókst þeim að skora þrjú mörk en það dugði ekki til.
Leikurinn fór rólega af stað en hitnaði í kolunum á 16. mínútu þegar Daði Bergsson, framherji Vals, komst í dauðafæri. Hann fékk þá góða sendingu frá Magnúsi Má Lúðvíkssyni á hægri kantinum inn í vítateig Fjölnis. Daði var hins vegar lengi að athafna sig þar sem hann var einn á móti Þórði Ingasyni, markverði Fjölnis, og lauk sókninni með slöku skoti.
Valsmenn komust yfir á 24. mínútu þegar Bjarni Ólafur Eiríksson sendi boltann fyrir mark Fjölnis. Í vítateignum var Sigurður Egill Lárusson mættur og afgreiddi boltann snyrtilega upp í hægra hornið.
Fjórum mínútum síðar fékk Daði sitt annað dauðafæri á átta mínútum. Hann var þá með knöttinn uppi við endamörk og kom honum einhvern veginn framhjá Þórði. Boltinn var á leið yfir línuna þegar varnarmaður Fjölnis náði til hans og bjargaði.
Daði bætti heldur betur fyrir klúður sín tvö því hann skoraði tvö mörk með þriggja mínútna millibili. Annars vegar á 31. mínútu þegar hann nýtti sér varnarmistök Árna Kristins Gunnarssonar sem átti slaka sendingu til baka á Þórð í markinu. Daði komst inn í sendinguna og átti ekki vandræðum með að sneiða hann í hægra hornið.
Á 34. mínútu fékk Daði svo fasta sendingu á nærstöngina frá Billy Berntsson og þrumaði honum upp í þaknetið.
Þremur mínútum áður en flautað var til leikhlés var staðan svo næstum því orðin 4:0 en þá tætti Daði í sig varnarmenn Fjölnis og kom boltanum fyrir markið. Kristinn Freyr Sigurðsson reyndi þá létta hælspyrnu og var boltinn næstum því farinn yfir línuna.
Staðan var því 3:0 fyrir Valsmenn í hálfleik.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnismanna, gerði tvær skiptingar í hálfleik. Meðal annars kom inn á völlinn Aron Sigurðarson. Sú skipting virtist hafa góð áhrif á leik Fjölnis en Aron lagði upp mark Þóris Guðjónssonar á 49. mínútu.
Valsmenn urðu fyrir áfalli á 55. mínútu þegar Daði þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Það reyndist þó ekki meira en svo að eftirmaður Daða, Kristinn Ingi Halldórsson, skoraði ágætt mark á 62. mínútu. Fékk hann þá stungusendingu inn fyrir vörn Fjölnis frá nafna sínum, Kristni Frey Stefánssyni.
Fjölnismenn gáfust ekki upp og börðust sem ljón. Uppskáru þeir með marki á 72. mínútu en þar var að verki áðurnefndur Aron sem skoraði með glæsilegu skoti vinstra megin úr vítateig Vals. Hafnaði boltinn uppi í hægra horninu.
Á 82. mínútu fengu Fjölnismenn svo aukaspyrnu fáeinum metrum fyrir utan vítateig Vals. Títtnefndur Aron steig á stokk, skaut að marki og inn fór boltinn. Skotið var ágætt en Fjalar hefði átt að gera betur í markinu.
Lokamínúturnar voru æsispennandi. Á 84. mínútu fékk Atli Már Þorbergsson sannkallað dauðafæri fyrir Fjölni og átti hreinlega að jafna metin. Það eina sem hann þurfti að gera var að koma boltanum yfir línuna þegar hann barst til hans á fjærstönginni. Ekkert var á milli hans, boltans og marksins. En allt kom fyrir ekki og flækjufótur gerði vart við sig.
Þrátt fyrir mikinn sóknarþunga tókst Fjölnismönnum ekki að skora jöfnunarmarkið og þurftu að sætta sig við eins marks tap, 3:4.
Fylgst er með leiknum í beinni textalýsingu hér fyrir neðan. Þá er fylgst með öllum leikjum kvöldsins í Pepsi-deildum karla og kvenna hér á mbl.is í ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.
Valur 4:3 Fjölnir
Valur: (4-3-3) Mark: Fjalar Þorgeirsson. Vörn: Billy Berntsson, Magnús Már Lúðvíksson, Mads Nielsen, Bjarni Ólafur Eiríksson. Miðja: Iain Williamson (Halldór Hermann Jónsson 79), Tonny Mawejje, Kristinn Freyr Sigurðsson. Sókn: Sigurður Egill Lárusson, Patrick Pedersen (Haukur Páll Sigurðsson 85), Daði Bergsson (Kristinn Ingi Halldórsson 55).
Varamenn: (M), Haukur Páll Sigurðsson, Kristinn Ingi Halldórsson, Kolbeinn Kárason, Anton Ari Einarsson, Gunnar Gunnarsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Halldór Hermann Jónsson.
Fjölnir: (4-5-1) Mark: Þórður Ingason. Vörn: Árni Kristinn Gunnarsson, Atli Már Þorbergsson, Bergsveinn Ólafsson, Matthew Ratajczak. Miðja: Guðmundur Karl Guðmundsson (Aron Sigurðarson 46), Illugi Þór Gunnarsson, Gunnar Már Guðmundsson, Guðmundur Böðvar Guðjónsson (Guðmundur Karl Guðmundsson 46), Ragnar Leósson. Sókn: Þórir Guðjónsson (Christopher Tsonis 77).
Varamenn: Arnar Freyr Ólafsson (M), Gunnar Valur Gunnarsson, Aron Sigurðarson, Viðar Ari Jónsson, Haukur Lárusson, Magnús Páll Gunnarsson, Christopher Tsonis.
Skot: Valur 7(3) – Fjölnir 7 (5)
Horn: Valur 5 – Fjölnir 5.
Lýsandi: Andri Karl
Völlur: Vodafonevöllurinn að Hlíðarenda
Áhorfendafjöldi: 852
Leikur hefst
6. ágú. 2014 19:15
Aðstæður:
Fimmtán stiga hiti, létt gola og þurrt. Völlurinn í fínu ásigkomulagi.
Dómari: Kristinn Jakobsson
Aðstoðardómarar: Gylfi Már Sigurðsson og Smári Stefánsson