Í kvöld, mánudaginn 20. júní, verður farið í sólstöðugöngu í Viðey þá sjöttu í röð, en slíkar göngur hafa tíðkast í Reykjavík frá árinu 1985. Gengið verður um fallegar slóðir á vesturhluta Viðeyjar og staldrað við á nokkrum stöðum til þess að hlýða á erindi leiðsögumanna kvöldsins. Þór Jakobsson veðurfræðingur mun segja frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður. Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness verður með áhugavert erindi í fjöruborðinu í Viðey.
Venju samkvæmt verður slegið upp varðeldi og sungið saman undir harmónikkuspili. Gönguleiðin er hæfileg en mælt er með góðum skóm, skjólgóðum jakka og smá nesti.
Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20:30 og siglt til baka kl. 23:00. Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.200 kr. fyrir fullorðna, 1000 kr. fyrir eldri borgara og 600 kr. fyrir börn 7–15 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Minnt er á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.