Séra Guðrún Karls Helgudóttir hefur verið skipaður sóknarprestur í Grafarvogskirkju frá 1. maí að telja. Guðrún Karls sagði í samtali við grafarvogsbuar.is vera glöð og stolt og hlakka til að takast á við nýju verkefnin og halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið í kirkjunni. Hún er íbúum hverfisins að góðu kunn en hún hefur gegnt prestmennsku í Grafarvogssókn í átta ár en þess má geta að Vigfús Þór Árnason lætur senn af störfum við kirkjuna.
,,Starfsfólkið í kirkjunni er stórkostlegt sem gerir starfið svo lifandi og skemmtilegt. Okkur stærstu sóknarfæri núna er það sem tengist kirkjuselinu og því sem er að gerast þar upp frá. Við erum að vinna í stefnumótun og verið í samtali við hinar ýmsu stofnanir og félög í hverfinu um samstarf og samvinnu. Það er komið nokkuð langt á veg og þar getum við sagt að sé mikill vaxtabroddur,“ sagði Guðrún Karls.
– Eru íbúar í Grafarvogi duglegir að sækja kirkjuna?
,,Já, það eru þeir og við getum sagt að það sé ágætis messusókn í Grafarvogi. Það er mikið líf í kirkjunni allt árið um kring má segja. Sú umræða sem kemur stundum fram í fjölmiðlun að það sé minnkandi traust á kirkjunni, sem reyndar er að aukast aftur, höfum við ekki fundið fyrir hér í Grafarvogssókn. Við finnum bara fyrir aukinni kirkjusókn og hér fara í gegn þúsundir í hverri viku og fólk er glatt og ánægt með þjónustuna sem það fær hér,“ sagði Guðrún Karls.
Hún var innt eftir starfinu sem fram færi í kirkjunni og kom hún sérstaklega inná barna- æskulýðs, og kórastarfið.
,,Í kirkjunni er ennfremur mikil sálgæsla og alls kyns og hópastarf fyrir fullorðna og eldri borgara. Svo eru hér helgistundir marga daga vikunnar. Allt þetta sem ég nefndi er fyrir utan starfið sem unnið er um helgar þar sem eru guðþjónustur á tveimur stöðum og tveir sunnudagaskólar. Grafarvogskirkja sér í auknum mæli um ýmsar athafnir og í því sambandi er hægt að nefna jarðarfarir, oft fjóra daga vikunnar. Það er svo sannarlega í mörg horn að líta í einni stærstu sókn landsins,“ Guðrún Karl Helgudóttir nýskipaður prestur í Grafarvogsprestakalli.
Þess má geta að 15.maí næstkomandi útskrifast Guðrún Karls sem ,,Doctor of ministry“ í prédikunarfræðum. Hún hefur verið að stunda það nám undanfarin fjögur ár og varði ritgerð sína í síðustu viku í Svíþjóð og heldur síðan til Chicago í maí til að útskrifast. Að sögn Guðrúnar Karls hefur hún stundað námið í lotum, farið út tvisvar á ári, fyrst til Uppsala í Svíþjóð þar sem hún tók fyrri hlutann og síðan til Chicago þar sem hún tók síðari hlutann.