Á ævintýradögum má læra ýmislegt fyrir útivistina í sumar.
Gufunesbær efnir nú í júní til Ævintýradagskrár í samstarfi við Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Þátttakendur læra ýmislegt spennandi fyrir útivistina á stuttum tíma. Þetta er sannkallað ævintýranám sem skólar og frístundaheimili í Grafarvogi eru að nýta sér.
Í bókinni Outdoor education: Methoods and Strategies er ævintýranám skilgreint m.a. sem nám til að þróa líkamlega færni, ákveðna hæfni eða persónulegan þroska við útivistariðju. Í ævintýranámi gefst tækifæri til að fást við sjálfan sig, samskipti við aðra og umhverfið.
Algeng viðfangsefni ævintýranáms eru t.d. útilegur, klifur, rötun og siglingar. Í þessari dagskrá verður börnunum gefin innsýn í svipuð viðfangsefni. Þau læra á áttavita, byggja skýli og kveikja bál til að hita sér vatn í heitan drykk. Þá verður hægt að prófa að tálga og skapa þannig eitthvað úr trjágreinum og öðru efni sem finnst í umhverfinu. Dagskráin er miðuð við nemendur í 3.– 5. bekk. Hóparnir koma bæði fyrir og eftir hádegi og hitta leiðbeinanda sem kennir þeim á stuttum tíma ýmislegt sem jafnvel Robinson Crusoe eða frægar Survivor hetjur hefðu verið full sæmdar af.