Við þetta tilefni birtum við glænýja vefsíðu félagsins https://www.vogabuar.is og bjóðum 50% afslátt af félagsgjöldum fyrstu önnina 7.500kr í stað 15.000kr.
Nafnið ætti að vera eldri Grafarvogsbúum kunnugt þar sem annar helmingur félagsins hét Vogabúar við stofnun 1988 og allt fram að sameiningu við Dalbúa árið 2002 þegar nafnið Hamar var tekið upp á sameinuðu félagi. Lagt hefur verið til að bakvarðasveit félagsins taki upp nafnið Hamar, enda klettur í starfi félagsins.
Framundan eru spennandi tímar hjá Vogabúum og fyrirhuguð mikil uppbygging á skátastarfi í Grafarvogi og Grafarholti. Stefnt verður á að halda úti starfsemi í öllum aldurshópum ásamt því að innleiða fjölskylduskátastarf líkt og Skjöldungar hafa gert við góðar undirtektir.
Mánaðarþemu hafa verið skipulögð og byggja þau á færnimerkjum skátastarfsins í anda útivistar, sköpunar, björgunar, meðhöndlun tóla og framkomu með leik og söng. Skátahreyfingin er uppeldishreyfing sem leggur áherslu á útilíf, sjálfsbjargarviðleitni, jafnrétti og jafningjafræðslu.
Kynningardegi sem átti að halda á morgun hefur verið frestað vegna Covid frétta í dag en stefnt verður á að halda hann við fyrsta tækifæri þegar aðstæður í samfélagi okkar leyfa. Skátastarfið hefst formlega á miðvikudaginn 23.9 með fundum í öllum flokkum.
Vogabúar bjóða unga sem aldna íbúa í Grafarvogi og Grafarholti velkomna að kynna sér Vogabúa og taka þátt í að byggja upp skátastarfið í hverfunum með okkur.