SKÁKHÁTÍÐ Í HÖLLINNI
Það fór vel um 350 skákmenn og skákkonur í Egilshöllinni á Íslandsmóti skákfélaga, fyrri hluta, sem fram fór um helgina í Úrvalsdeild og í 1. – 4. deild.
Skákdeild Fjölnis hefur í 15 ár skaffað þessu fjölmennasta skákmóti heppilegt húsnæði og þar með keppnisskilyrði, fyrst í Rimaskóla og nú annað árið í röð í Egilshöll.
Það sem einkennir mótið er óvenju breið aldursdreifing keppenda. Þeir eru á aldursbilinu frá yngstu bekkjum barnaskóla og allt upp i 90 ára öldunga. Þarna eru mættir íslensku stórmeistararnir, erlendir stórmeistarar sem styrkja skáksveitir úrvals-og 1. deildar svo og þekktir íslenskir einstaklingar sem kunna ýmislegt fyrir sér í skáklistinni.
Skákmenn kunna vel við sig í rúmgóðri Egilshöll og njóta veitinga sölunnar sem efnilegar skákstúlkur Fjölnis sinna og safna fyrir þátttöku á skákmóti erlendis næsta ár.
Skákdeild Fjölnis sendi 3 skáksveitir til leiks á Íslandsmótið og eru flestir skákmenn Fjölnis uppaldir Grafarvogsbúar og íbúar í hverfinu.
A sveitin teflir i 6 liða efstu deild og á þar í harðri baráttu um að halda sæti sínu. Með A sveitinni tefldi tvítugur stórmeistari, Litháinn Valery Kazakouski sem náði 80% vinningshlutfalli og vakti taflmennska hans athygli og aðdáun.
Síðari hluti Íslandsmótsins verður tefldur í Egilshöll helgina 17. – 19. mars 2023. (Skoðið myndirnar)