Nemendur Rimaskóla gefa ekkert eftir þegar Íslandsmót skáksveita eru annars vegar. Um helgina fór fram afar spennandi Íslandsmót grunnskóla, 1. – 10. bekkur. Snemma varð ljóst að keppni 30 skáksveita yrði afar jöfn og spennandi. Helstu keppinautar Rimaskóla fyrirfram, skáksveit Álfhólsskóla í Kópavogi, tefldi við Rimaskóla í 1. umferð og unnu Kópavogsbúarnir 3-1. Eftir það gáfu Rimaskólakrakkar ekkert eftir og unnu hinar 8 viðureignirnar örugglega á meðan aðrir skólar voru að missa niður vinninga. Fyrir síðustu umferð voru Rimaskóli og Álfhólsskóli hnífjafnir en Rimaskóla gekk betur í lokaumferð. Þetta var fimmta árið í röð sem Rimaskóli vinnur þetta sterkasta grunnskólaskákmót landsins og á þeim tíma hefur skáksveitin algjörlega endurnýjast. Rimaskóli sendi líka B og C sveitir á mótið og varð C sveitin unga langefst í sínum flokki.Skáksveit Rimaskóla hefur með sigrinum tryggt sér sæti á Norðurlandamóti grunnskóla sem haldið verður í Danmörku í september. Rimaskóli hefur sex sinnum orðið Norðurlandameistari, oftar en nokkur annar skóli á Norðurlöndum. (HÁ)