- Kosningu á www.hverfidmitt.is lýkur annað kvöld
- Líklegt að Reykvíkingar slái nýtt met í kosningaþátttöku
- Örfá atkvæði hafa oft skilið á milli verkefna sem koma til framkvæmda
- Allir Reykvíkingar 15 ára og eldri geta kosið
- Stjörnumerkt atkvæði fær tvöfalt vægi
- Íbúar hvattir til að kjósa það sem þeim finnst raunverulega skipta máli
„Oft eru ekki nema örfá atkvæði sem ráða úrslitum,“ segir Guðbjörg Lára Másdóttir, verkefnisstjóri fyrir Hverfið mitt, en kosningar um verkefni til framkvæmda á næsta ári standa nú yfir á www.hverfidmitt.is.
Allir Reykvíkingar sem verða 15 ára á þessu ári og eldri geta kosið. Kosningaaldur var lækkaður í fyrra og gerir Guðbjörg ráð fyrir mun meiri þátttöku þess hóps nú í ár. „Unga fólkið er með rafrænu skilríkin sín á hreinu,“ segir hún.
Kosningu lýkur á morgun um miðnætti og telur Guðbjörg mjög líklegt að Reykvíkingar slái fyrra met í kosningaþátttöku, en í fyrra kusu 12,3% sem þá var töluverð auking frá árinu á undan þegar 10,9% tóku þátt. Til að slá fyrra met þurfa 13.300 íbúar að kjósa. Efst á kosningasíðunni kemur fram hve margir hafa kosið og má búast við að sjá þá tölu hækka hratt því alltaf hefur verið mikil þátttaka síðasta sólarhringinn.
Í kosningunum núna eru 108.134 Reykvíkingar á kjörskrá. Allir 15 ára og eldri með lögheimili í Reykjavík geta kosið. Guðbjörg bendir á að ekki þurfi að vera með ríkisborgararétt til að kjósa.
Guðbjörg hvetur alla til að kjósa og stjörnumerkja uppáhalds hugmyndina, því þannig fái hún tvöfalt vægi í talningu. Hún áréttar einnig að ekki þurfi að kjósa fyrir alla fjárhæðina sem birtist á vefnum. „Kjóstu einungis það sem þú raunverulega vilt sjá verða að veruleika í þínu hverfi,“ segir hún. Verkefnin sem kosin verða núna koma til framkvæmda á næsta ári.