Tvö ný fræðsluskilti hafa verið sett upp í Reykjavík og er viðfangsefni þeirra lífríki fjörunnar með áherslu á þörunga og smádýralíf. Skiltin eru á tveimur stöðum, annars vegar í Skerjafirði, nánar tiltekið við Faxaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur, og hins vegar við Gorvík milli Víkur- og Staðahverfis í Grafarvogi, við göngustíginn sem liggur milli Geldinganess og Blikastaðakrór.
Skiltin eru hluti af fræðslustarfi Reykjavík-iðandi af lífi sem er fræðsluátak umhverfis- og skipulagssviðs um náttúru og lífríki Reykjavíkur. Á skiltunum má sjá fallegar myndir af algengustu tegundum af þörungum og smádýrum sem einkenna lífríki fjörunnar á hvorum stað fyrir sig. Myndirnar eru eftir Jón Baldur Hlíðberg, sem er landsþekktur fyrir teikningar sínar af dýrum og plöntum.
Í Skerjafirði eru viðamestu þangfjörur í Reykjavík. Þær eru fremur stórgrýttar en brim er með minna móti og því aðstæður mjög góðar fyrir ýmsar tegundir þörunga. Fjölbreytni þang- og þarategunda er því mikil og má vel sjá þá beltaskiptingu sem einkennir tegundaauðugar þangfjörur. Efst í fjörunni þar sem er þurrast eru dvergaþang og klapparþang einkennandi, um miðbik fjörunnar er klóþang ríkjandi ásamt bóluþangi og þangskeggi, neðarlega við flæðarmálið er sagþang algengast en einnig er mikið af smáum rauðþörungum eins og söl og fjörugrösum. Allra neðst er síðan þarabeltið sem fer einungis að hluta til upp fyrir sjávarborðið þegar stórstreymt er. Stórþari, hrossaþari og beltisþari eru algengustu þarategundirnar. Dýralífið í þangfjörum Skerjafjarðar er sömuleiðis fjölskrúðugt. Sniglar eru einna mest áberandi, sérstaklega klettadoppur, þangdoppur og nákuðungar. Burstaormar eins og snúðormar, skerar og hreisturbakir eru algengir sem og liðdýr, einkum þanglýs, marflær og krabbar. Einnig má finna fiska eins og marhnút og sprettfisk í pollum neðarlega í fjörunni.
Gorvík er lítil vík rétt fyrir austan Geldinganes fyrir norðan Grafarvogshverfið. Þar er blönduð fjara, þónokkur þangfjara þótt ekki sé mjög stórgrýtt, en einnig sandfjara og leirur sem tengjast víðáttumiklu leirunum við Blikastaðakró eilítið austar. Tegundafjölbreytni þörunga er töluverð þó beltaskipting sé takmörkuð. Klóþang, söl og purpurahimna eru áberandi á sandfjörunni og einnig er mikið um sjórekinn þara. Í sandinum eru samlokur áberandi t.d. kúfskel og hjartaskel. Í leirnum eru burstaormar eins og sandmaðkur og í Gorvík hafa fundist risaskerar, stundum í miklum mæli, en þeir geta orðið allt að 25 sm langir.
Skiltin má sjá hér: Gorvík og Skerjafjörður.