Þjónustumiðstöðin Miðgarður er fyrsti vinnustaðurinn til að ljúka við verkefnin í skrefi 3 í grænum skrefum. Á vinnustaðnum er ítarleg sorpflokkun, óflokkað spor einungis 9%, í boði er eingöngu umhverfismerktur pappír, hreinsiefni og aðrar hreinlætisvörur eru einnig umhverfismerktar. Starfsfólk hefur aðgang að vistvænum farartækjum vegna vinnutengdra ferða og nýta sér það óspart. Farartækin hafa hlotið nöfn í samræmi við nafn vinnustaðarins. Rafdrifna reiðhjólið á staðnum heitir Sleipnir og í þjónustumiðstöðinni er einnig aðgangur að 2 metanbílum sem heita Huginn og Muninn.
Hera Hallbera Björnsdóttir hefur borið hitann og þungann af innleiðingu Grænna skrefa á vinnustaðnum með dyggri aðstoð samstarfsfólks síns. Í skrefi 2 og 3 er t.d. gerð krafa um grænt bókhald þar sem skráð er niður magnnotkun á pappír, rafmagni, hita og hreinlætisvörum. Einnig magnnotkun á jarðefnaolíu til að hægt sé að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda. „Með því að fylgjast með pappírsnotkun í gegnum græna bókhaldið höfum við tekið eftir að pappírsnotkun hefur dregist saman eftir að við hófum þátttöku í Grænum skrefum. Í raun hefur ekkert annað breyst, kannski er ástæðan sú að við erum meira meðvituð um að draga úr prentun.“ segir Hera.
Við óskum starfsfólki Miðgarðs innilega til hamingju með áfangann og hlökkum til að koma til þeirra aftur þegar vinnustaðurinn lýkur við verkefnin í skrefi 4.
Framkvæmd verkefnisins Grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar er einföld og aðgengileg og allir vinnustaðir á vegum Reykjavíkurborgar geta tekið þátt. Græn skref byggist á fjölmörgum aðgerðum sem snerta níu þætti sem hafa áhrif á umhverfið og innleidd í fjórum skrefum. Eitt af markmiðum Grænna skrefa er einmitt að vinnustaðir fái viðurkenningu fyrir metnað sinn í umhverfismálum.
Markmið verkefnisins er að:
• Gera starfssemi Reykjavíkurborgar umhverfisvænni
• Auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra
• Draga úr kostnaði í rekstri Reykjavíkurborgar
• Innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar
• Vinnustaðir fái viðurkenningu fyrir metnað sinn í umhverfismálum
• Vinnustaðir borgarinnar geti innleitt aðgerðir á mismunandi hátt eftir umfangi og eðli starfsseminnar
• Aðgerðir Reykjavíkurborgar í umhverfismálum séu sýnilegar
• Reykjavíkurborg verði fyrirmynd annarra í umhverfismálum