Fimm leikir verða í Pepsi deild karla á sunnudaginn (einn á mánudaginn) og mætum við Fjölnismenn í Garðabæinn og spilum við Stjörnuna á Samsung vellinum kl. 19.15.
Stjarnan er í 2. sæti deildarinnar og eru enn taplausir eftir 8 umferðir með 4 sigra og 4 jafntefli og einungis tveimur stigum á eftir toppliði FH. Stjarnan hefur á að skipa gríðarlega vel mönnuðu liði með Veigar Pál Gunnarsson, Jeppe Hansen, Ólaf Karl Finsen og Garðar Jóhannsson sem fremstu menn meðal jafningja. Í leikmannahópi Stjörnunnar er einning Hilmar Þór Hilmarsson sem spilaði svo vel með okkur Fjölnismönnum í 1. deildinni s.l. sumar. Svo má auðvitað ekki gleyma gleðigjafanum síkáta Pablo Punyed en hann átti frábært tímabil með Fjölni árið 2012.
Nú hafa komið tvö töp í deildinni í röð hjá strákunum (gegn FH og Fram) og eru strákarnir staðráðnir í að selja sig dýrt á sunnudaginn til að rétta við gengið og byrja aftur stigasöfnunina. Svo til allir leikmenn eru heilir en Aron Sig. fékk þungt höfuðhögg gegn Fram en ætti að vera orðin heill í leikinn gegn Stjörnunni. Þórir Guðjóns er einnig kominn á fullt eftir handarbrot og smávægilega tognun í nára.
Nú er ekkert annað en að skella sér útúr bænum um helgina og alla leið í Garðabæinn og hvetja strákana til sigurs. Ekki veitir af því Silfurskeið (stuðningsmannaklúbbur) Stjörnunnar eru rómaðir fyrir mikil læti og stemningu á leikjum Stjörnunnar.
ÁFRAM FJÖLNIR