Hvenær mun Reykjavíkurborg hefja söfnun á plasti við heimili? Hvernig mun Reykjavíkurborg draga úr sóun og myndun úrgangs í Reykjavík? Hvað verður gert við lífræna eldhúsúrganginn? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum er svarað í tillögum starfshóps um framtíð úrgangsmála í Reykjavík.
Reykjavíkurborg hefur óskað eftir umsögnum um drög að aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í Reykjavík. Áætlunin mun gilda fyrir árin 2015 – 2020 og eru markmið hennar að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Sérstök áhersla er lögð á val íbúa á þjónustustigi í tillögunum. Frestur til að skila umsögnum er til föstudagsins 3. júlí 2015.
Mikill ávinningur og betri yfirsýn
Skilvirk meðhöndlun úrgangs hefur í för með sér fjárhagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra en um er að ræða lögbundna grunnþjónustu sveitarfélaga. Aðgerðaáætluninni, sem er skipt í þrjú tímabil, er ætlað að auka yfirsýn og gegnsæi málaflokksins og auðvelda skipulagningu og forgangsröðun verkefna sem ráðist verður í. Lagðar eru til 42 aðgerðir, tíu leiðarljós og meginlínur um þjónustu grenndarstöðva sem verða til hliðsjónar við ákvarðanatöku um úrgangsmál í sveitarfélaginu.
Reykjavíkurborg mun áfram, samkvæmt tillögununum, bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og greiða íbúar fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar núna valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða láta sækja endurvinnsluefni við heimili sín.
Óskað eftir umsögnum
Sérstök áhersla er lögð á upplýsingagjöf í drögunum en fræðsla er undirstaða aukinnar neysluvitundar sem dregur úr sóun. Mikilvægt er að draga úr úrgangi frá fyrirtækjum og heimilum og úr fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði við meðhöndlun hans.
Borgin hefur sett gott fordæmi með umhverfisvænum rekstri stofnanna borgarinnar, svo sem með verkefninu Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar. Enn frekari áhersla verður lögð á flokkun og skil endurvinnanlegs úrgangs hjá stofnunum borgarinnar á næstu árum.
Rekstraraðilar munu verða hvattir til að auka flokkun og skil á endurvinnsluefnum til að uppfylla þau markmið í úrgangsmálum sem Reykjavíkurborg vinnur að en svipað magn af úrgangi fellur til frá rekstraraðilum í Reykjavík og íbúum.
Umsagnir skal senda í tölvupósti á netfangið umsogn@reykjavik.is eða í bréfpósti til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 – 14, 105 Reykjavík til og með föstudeginum 3. júlí 2015. Allar ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara í áherslum borgarinnar til ársins 2020 í þessum mikilvæga málaflokki eru vel þegnar.
Hjálögð Aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í Reykjavík til 2020
Umsagnarvefur þar sem óskað er eftir tillögum og aðgerðum í úrgangsmálum í Reykjavík