Hátt í 200 börn settust til tafls í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í dag er teflt var í yngri flokki Jólaskákmóts TR og Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til, bæði við framkvæmd mótsins en ekki síður á taflborðunum sjálfum þar sem hart var tekist á í drengilegri keppni. Mótið var tvískipt og hóf Suður riðill keppni kl.10:30 en Norður riðill hófst klukkan 14:00.
Í Suður riðli -opnum flokki- vann Ölduselsskóli með miklum yfirburðum enda einkar vel skipuð skáksveit með reynslumikla skákmeistara á hverju borði. Sveitin hlaut hvorki fleiri né færri en 23 vinninga í 24 skákum! Keppnin um annað sætið og þar með sæti í úrslitum var æsispennandi. Fyrir síðustu umferð hafði Háteigsskóli 1,5 vinnings forskot á Norðlingaskóla en sveitirnar mættust einmitt í síðustu umferðinni. Að loknum þremur skákum leiddi Norðlingaskóli 2-1 og þurfti því sigur í síðustu skákinni til að tryggja sér annað sætið. Eftir mikinn barning fór þó svo að skákin endaði með jafntefli og þar með tryggði Háteigsskóli sér annað sætið þrátt fyrir að tapa viðureigninni 1,5-2,5. Háteigsskóli hlaut 16 vinninga en Norðlingaskóli varð í þriðja sæti með 15,5 vinning.
Í Norður riðli -opnum flokki- vann Rimaskóli með sömu yfirburðum og Ölduselsskóli fyrr um daginn. Hin feykisterka skáksveit Rimaskóla hlaut 23 vinninga í 24 skákum! Fossvogsskóli endaði í öðru sæti með 19 vinninga. Það má með sanni segja að þessar tvær sveitir hafi verið í nokkrum sérflokki. Ingunnarskóli endaði í 3.sæti með 16,5 vinning.
Nánar verður sagt frá mótinu eftir að því líkur á morgun mánudag.
Taflfélag Reykjavíkur vill þakka öllum þeim fjölda barna sem tóku þátt, og einnig liðsstjórum og foreldrum sem hjálpuðu til að láta þetta stærsta barna og unglingamót ársins heppnast jafnvel og raun bar vitni í dag. Kærar þakkir!