Arngrímur Broddi Einarsson í Kelduskóla fór með sigur af hólmi í Stóru upplestrarkeppninni í Grafarvogi, í öðru og þriðja sæti voru félagarnir úr Rimaskóla, Róbert Ingi Baldursson og Kári Jóhannesarson.
Enda þótt Pisa kannanir sýni að um 23% stráka á Íslandi geti ekki lesið sér til gagns þá var annað uppi á teningnum þegar sjö strákar og sjö stelpur úr 7. bekkjum grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi lásu til úrslita í Stóru upplestrarkeppninni. Þar stóðu upp úr þeir Arngrímur Broddi Einarsson Kelduskóla sem hlaut 1. sætið og félagarnir úr Rimaskóla, Róbert Ingi Baldursson og Kári Jóhannesarson sem hlutu 2. og 3. sætið.
Keppnin var mjög jöfn og krakkarnir komu allir vel undirbúnir fyrir lesturinn. Markmið upplestrarkeppninnar er að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði. Úrslitakeppnin fór fram í Hlöðunni Gufunesbæ og var hvert sæti skipað í salnum. Keppendurnir fjórtán lásu sögubrot úr sögunni Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson og tvö ljóð.
Teresa Evertsdóttir úr Rimaskóla og Andrea Hlynsdóttir úr Kelduskóla kynntu keppendur til leiks og básúnuleikarinn Jón Arnar Einarsson úr Skólahljómsveit Grafarvogs lék tvö þekkt lög við undirleik föður síns Einars Jónssonar stjórnanda hljómsveitarinnar. Mörg fyrirtæki styrkja upplestrarkeppnina og gefur Íslandsbanki verðlaunahöfum myndarlega peningaupphæð inn á bankabók.
Umsjón með Stóru upplestrarkeppninni í Grafarvogi hafði Ragnheiður Axelsdóttir kennsluráðgjafi í Miðgarði.