Í ljósi umræðu um helgarmáltíðir hjá félagsmiðstöðinni Borgum í Grafarvogi er rétt að árétta nokkur atriði. Borgir eru meðal 17 félagsmiðstöðva sem Reykjavíkurborg rekur þar sem boðið er upp á hádegismat og kaffiveitingar alla virka daga en ekki um helgar.
Vitatorg við Lindargötu er eina eldhúsið sem opið er alla daga ársins en þar er framleiðslueldhús borgarinnar og þaðan kemur allur matur í móttökueldhús félagsmiðstöðvanna og heimsendi maturinn. Vitatorg er opið íbúum úr öllum hverfum sem þar vilja snæða.
Fyrir atbeina íbúa Eirborga var ákveðið að bjóða upp á mat um helgar á Borgum. Hins vegar var ekki tryggt fjármagn fyrir þeim aukakostnaði sem helgaropnum í Borgum hafði í för með sér árið 2015. Fjárveitingar fyrir árið 2016 gera heldur ekki ráð fyrir þessum kostnaði. Því var ekki talið hægt að veita þjónustuna áfram frá og með 1. janúar 2016. Matarþjónustan er veitt á virkum dögum og hægt er að fá heimsendan mat um helgar og á almennum frídögum allt árið um kring.
Við undirbúning á opnun nýrrar félagsmiðstöðvar í Borgum, Spöng, var miðað við að rekstur matsals yrði með sama þjónustustigi og annars staðar í borginni, þ.e. að starfrækt væri mótttökueldhús og matur kæmi frá Vitatorgi alla virka daga. Þá var gert ráð fyrir að íbúar gætu fengið heimsendan mat um helgar og með því fyrirkomulagi væri gætt jafnræðis meðal borgarbúa.
Fulltrúi frá þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar Miðgarði í Grafarvogi, hjúkrunarheimilinu Eir og fulltrúi íbúa í Eirborgum munu í viðræðuhópi fara í sameiningu yfir umrætt mál og vinna að farsælli lausn þess.