Sarah Specially, ítalskur kennslufræðingur og fyrrverandi skiptinemi við Rimaskóla, heimsótti nú annað árið í röð skólann og með henni í för var 30 manna hópur ítalskra leikskóla-grunnskóla-og framhaldsskólakennara. Ferðin til Íslands er bæði fræðslu og kynningarferð 30 kennara. Líkt og í fyrra var óskað eftir því að hópurinn kæmi í heimsókn í Rimaskóla og skipulagði Helgi Árnason skólastjóri og starfsfólk hans fjögurra tíma fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Auk kaffiveitinga og hádegisverðar var boðið upp á kynningu á skólanum og tveggja tíma skipulagða skoðunarferð um skólann. Ítölsku kennararnir sýndu skólastarfinu mikinn áhuga og fannst þeim búnaður og aðstaða afar öfundsverð miðað við það sem þeir höfðu að venjast. Heimsókn ítölsku kennaranna bar upp á árshátíðardag unglingadeildar og endaði heimsóknin á að ítölsku gestirnir tóku þátt í dansæfingu nemenda undir stjórn Eyrúnar íþróttakennara sem náði að venju upp frábærri stemmningu.