Fjölnir tryggði sér í kvöld réttinn til að leika um sæti í Olís-deild karla í handknattleik þegar að liðið lagði Selfoss að velli, 24-23, í sannkölluðum háspennuleik í Dalhúsum í Grafarvogi. Stemningin á leiknum var engu lík, troðfullt hús en 700 áhorfendur fylgdust með leiknum sem er met í Dalhúsum.
Kristján Örn Kristjánsson tryggði Fjölni sigurinn með marki ellefu sekúndum fyrir leikslok og ætlaði allt um koll að keyra. Selfyssingar brunuðu í sókn en leiktíminn fjaraði út og Fjölnismenn fögnuðu innilega í leiksok.
Fjölnir var yfir í hálfleik, 13-12, en í síðari hálfleik var leikurinn mjög sveiflukenndur og náðu Selfyssingar um tíma þriggja marka forystu. Fjölnismenn vöknuðu á ný til lífsins, jöfnuðu, og allt til loka var leikurinn í járnum en Fjölnir var sterkara á lokasprettinum. Jafnt var 23-23, þegar innan við mínúta var eftir en markið frá Kristjáni Erni í lokin gerði gæfumuninn.
Fjölnir mætir Víkingi í úrslitarimmu um sæti í Olís-deildinni á næstu leiktíð. Fyrsta viðureign liðanna verður í Víkinni á mánudaginn 20 apríl klukkan 19.30. Annar leikurinn verður fimmtudaginn 23. apríl, sumardaginn fyrsta, í Dalhúsum klukkan 16. Það lið sem verður fyrr til að vinna tvo leiki tryggir sér keppnisrétt í Olís-deildinni.
Video myndir frá leiknum sem sýna vel spennuna og skemmtunina.
[su_youtube url=“https://youtu.be/mmkJyN_iB2A“]
[su_youtube url=“https://youtu.be/O6wUsu9LWDA“]
[su_youtube url=“https://youtu.be/-dVbQTZjcN4″]
[su_youtube url=“https://youtu.be/_2xT5AOTjyU“]