Óskar Víkingur Davíðsson í Ölduselsskóla varð í dag Íslandsmeistari barna (10 ára og yngri) eftir æsispennandi keppni sem fram fór í Rimaskóla. Óskar, Joshua Davíðsson Rimaskóla og Róbert Luu Álfhólsskóla komu allir jafnir í mark með 8 vinninga í 9 skákum. Grípa þurfti því til aukakeppni og þar hafði Óskar Víkingur sigur, hálfum vinning á undan Fjölnisdrengnum Joshua. Mótið fór fram við bestu aðstæður í hátíðarsal Rimaskóla og voru tæplega 100 krakkar mættir á Íslandsmótið og Íslandsmótið í peðaskák sem fram fór samhliða og er fyrir byrjendur. Yngsti keppandinn á mótinu sem einmitt var með í peðaskákinni var 4 ára gamall leikskólastrákur. Greinilegt er að mikil gróska er í skákinni og ánægjulegt að fylgjast með færni þessara kornungu krakka. Um tugur þátttakenda komu frá skákdeild Fjölnis og urðu þeir allir fyrir ofan miðju í keppninni.