Undanfarna mánuði hefur starf handknattleiksdeildar Fjölnis breyst mikið. Má þar helst nefna að deildin fékk gæðavottun sem fyrirmyndardeild ÍSÍ og var hún samþykkt sama dag og farið var á Partille Cup í sumar. Iðkendum deildarinnar hefur fjölgað jafnt og þétt, sérstaklega í yngstu flokkunum (7. og 8. flokk). Í haust var ákveðið að gera átak í yngstu flokkunum og meðal verkefna var að stofna 8. flokk sem sér hóp. Áður hafði hann æft saman með 7. flokki. Þetta átak ásamt velheppnuðu ís og bíó átaki hefur ýtt undir fjölgun í deildinni sem er vel.
Það eru gleðitíðindi að 7. flokkar karla og kvenna hafa ekki verið eins stórir í mörg ár. Á síðasta móti sem haldið var í lok nóvember af Haukum og FH skráði Fjölnir 10 lið (6 stráka og 4 stelpu). Við bindum miklar vonir við að þessi fjölgun haldi áfram.
Handknattleiksdeildin stóð fyrir ráðningu á mjög hæfum og reyndum þjálfurum, alveg niður í yngstu flokkana. Deildin er afskaplega ánægð með gæði þeirra þjálfara sem tekist hefur að laða til félagsins. Gæðin sjást meðal annars í margra ára reynslu og íþróttafræðimenntunar fimm, að verða sex þjálfarar deildarinnar búa að. Þeir eru: Gísli Guðmundsson markmannsþjálfari, Halldóra Björk Sigurðardóttir þjálfari 7. flokks, Sveinn Þorgeirsson yfirþjálfari og þjálfari 7. flokks, Guðmundur Rúnar Guðmundsson þjálfari 3. og 4. flokks karla ásamt því að aðstoða meistaraflokk karla og Arnór Ásgeirsson nýraðinn framkvæmdarstjóri deildarinnar. Ásamt þessu föruneyti stefnir Grétar Eiríksson þjálfari meistaraflokks og 2. flokks karla á útskrift í sumar.
Deildin gekk frá ráðningu á nýjum þjálfara 3. og 4. flokks kvenna. Hún fékk til liðs við sig reynsluboltann Andrés Gunnlaugsson. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa krækt Andrés sem mun vafalítið koma með ný og fersk sjónarmið í starf deildarinnar, og þá mun áralöng reynsla hans án efa hjálpa okkur mikið. Það verður ekki rætt um þjálfara deildarinnar án þess að minnast á að enn njótum við krafta Boris Bjarna Akbachev. Boris hefur þjálfað handbolta í um hálfa öld og hélt upp á 80 ára afmælið í sumar að viðstöddum fyrrum lærisveinum sínum og velunnurum. Það eru hrein forréttindi að hafa slíkan mann í deildinni og viljum við þakka honum sérstaklega fyrir sitt framlag til deildarinnar. (sjá mynd)
Gengi 3. flokks kvenna hefur verið upp og niður í 2. deild en í síðustu leikjum hafa stelpurnar sýnt góða takta og krækt í mikilvæga sigra. Margar stelpur úr eldra ári 4. flokks spila með 3. flokkinum.
4. og 5. flokkar félagsins hafa verið að gera flotta hluti í vetur. Eldra ár 4. flokks kvenna er þessa stundina ósigrað í 1. deild og virðast til alls líklegar. Yngri stelpurnar gefa ekkert eftir og eru í toppbaráttunni í 1. deild en hafa verið óheppnar í tapleikjum. Strákarnir eru einnig að gera góða hluti þess má geta að eldra árið sem er í 2. deild er taplaust og hafa unnið sína leiki nokkuð sannfærandi. Yngri árs lið strákanna eru í 1. og 2. deild og standa sig vel þar. Toppbaráttan í 1. deildinni er æsispennandi þar sem okkar menn gefa ekkert eftir. Margir strákar í 5. flokki eru að stíga sín fyrstu skref í spili með harpix bolta.
5. flokkar félagsins sem hafa tekið þátt á fjölliðamótum á vegum HSÍ hefur gengið vel undir stjórn Steinþórs Andra Steinþórssyni (kvenna) og Páls Daníelssyni (karla) í haust og munu halda áfram að æfa vel og standa sig á næstkomandi mótum. 6.flokkar deildarinnar hafa sömuleiðis gengið vel undir stjórn þeirra Jakobs Steins og Sigurðar Guðjónssonar. Drengirnir æfa í Dalhúsum og Rimaskóla og stúlkurnar eru alfarið í Rimaskóla. Þetta eru skemmtilegir hópar og góður aldur til að prófa, sem við mælum að sjálfsögðu með því æfingarnar og félagsskapurinn er mjög skemmtilegur!
Að lokum er vert að skoða áhugaverðan árangur meistaraflokks karla. Þeir hafa spilað flesta leiki sína vel og eru um miðja deild þegar jólafríið fer að bresta á. Áhugavert er að skoða aldur liðsins en elstu leikmenn liðsins eru fæddir árið 1988 og sá yngsti 1997. Yfir 80% af strákunum eru uppaldnir sem gefur til kynna góða umgjörð í yngri flokkum. Unnið er eftir hugmyndafræði Borisar undir stjórn Grétars Eiríkssonar, honum til aðstoðar er Guðmundur Rúnar Guðmundsson.
Með áframhaldandi starfi og umgjörð í yngri flokkum vonast deildin eftir að meistaraflokkur karla haldi áfram að bæta sig og verði von bráðar meðal bestu liða á landinu. Meistaraflokkur kvenna er innan seilingar en það er klárt mál að halda þurfi rétt á spilunum til að koma þeim í efstu deild.
Við hvetjum ykkur kæru Grafarvogsbúar til að fylgjast vel með handboltanum í vetur og hjálpa okkur við að koma honum á hærra stig. Kíkið við á facebook síðu deildarinnar https://www.facebook.com/handboltifjolnir og verið með í rússíbananum!
Saman komust við alla leið!
Fyrir hönd handknattleiksdeildar Fjölnis,
Arnór Ásgeirsson,
Framkvæmdarstjóri HKD Fjölnis