Grafarvogssöfnuður 25 ára

Grafarvogskirkja 10 áraÁrið l989 var Grafarvogssöfnuður í Reykjavíkurprófastsdæmi stofnaður. Um langan tíma var hann yngsti söfnuður þjóðarinnar.

Sóknarbörnin voru við stofnun safnaðarins rúmlega þrjú þúsund talsins en þeim hefur fjölgað ört á liðnum árum. Um tíma fjölgaði þeim um eitt hundrað í hverjum mánuði. Sóknarbörnin eru nú yfir nítján þúsund talsins.

Eðilega var engin kirkja til staðar þá er sóknin var að verða til. Við fengum inni með með kirkjustarfið í Foldaskóla og Félagsmiðstöðinni Fjörgyn. Hún var okkar „kirkja“ fyrstu árin. Fundir sóknarnefndar fóru fram á kennarastofunni í skólanum. Rákust þeir ekki á kennslustarfið þar sem þeir fóru oftast fram að kvöldlagi.

Strax við upphaf safnaðarstarfsins skapaðist mikill áhugi hjá söfnuðinum á að eignast kirkju. Það gekk nokkuð hratt fyrir sig að uppfylla þá ósk safnaðarins. Þann 12. desember 1993 var neðri hæð Grafarvogskirkju vígð og fluttist þá safnaðarstarfið þangað. Þá jókst allt safnaðarstarf til mikilla muna. Arkitektar kirkjunnar eru Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson.

Stóri draumurinn rættist síðan þegar Grafarvogskirkja var vígð þann 18 júní árið 2000 á Kristnihátíðarári, á eitt þúsund ára afmæli Kristnitökunnar.

Altarismynd kirkjunnar sem nefnd hefur verið „Þjóðargersemi“ sýnir einmitt Kristnitökuna árið 1000 á Þingvöllum . Altarismyndin, sem er steindur gluggi eftir hinn góðkunna listamann Leif Breiðfjörð, er gjöf ríkisstjórnarinnar til æsku landsins en Grafarvogssókn hefur oft verið nefnd „barnasóknin“ vegna fjölda barna í kirkjusókninni.

Kirkjan

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, afhenti verkið á vígsludegi, þá er biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson vígði kirkjuna.

Næstkomandi sunnudag, 21. september kl. 14:, verður haldin hátíðarguðsþjónusta í kirkjunni til að minnast   25 ára afmælis safnaðarins. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, mun prédika og núverandi prestar safnaðrins , sem eru fjórir að tölu, munu þjóna fyrir altari ásamt fyrrverandi prestum.

Þrír kórar kirkjunnar, Kór Grafarvogskirkju, Vox Populi og Stúlknakór Reykjavíkur í Grafarvogskirkju, munu syngja undir sjórn Hákonar Leifssonar, Hilmars Arnar Agnarssonar og Margrétar Pálmadóttur .

Eftir messu verður biskupi færð 25 ára afmælisbók Grafarvogssafnaðar. Höfundur er Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður. Bókin er vönduð að allri gerð, skemmtileg og vel skrifuð.

Í lokin er hátíðargestum boðið í kaffisamsæti.

Það er von okkar að velunnarar kirkjunnar verði með okkur á þessum tímamótum í starfi safnaðarins.

Vigfús Þór Árnason,
sóknarprestur Grafarvogssóknar

 

 

 

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.