Önnur viðureign Fjölnis og Selfoss í umspilsleikjunum um sæti í Olís-deildinni í handknattleik verður háð annað kvöld í Vallaskóla á Selfossi og hefst leikurinn klukkan 19.30. Fjölnismenn unnu fyrstu viðureignina í Dalhúsum sl. föstudagskvöld og það lið sem fyrr verður að vinna tvo leiki fer í úrslitarimmuna gegn annað hvort Víkingi eða Hömrunum.
Mikil spenna er fyrir leikinn á Selfossi annað kvöld og hafa Fjölnismenn skipulagt hópferð á leikinn og verður lagt upp frá Dalhúsum í rútu klukkan 18.30. Farið kostar 1000 krónur, fram og til baka.
,,Við erum búnir að bíða eftir þessum leikjum í allan vetur en við stefndum að því leynt og ljóst að komast í þessa leiki. Þetta er rosalega spennandi verkefni, við getum farið alla leikið, og þangað hefur stefnan verið tekin. Við lékjum vel í fyrsta leiknum og vonandi höldum við áfram á sömu braut. Við tókum góða æfingu í dag, allir eru heilir og það er góður andi í liðinu,“ sagði Sveinn Þorgeirsson leikmaður Fjölnis, í samtali við grafarvogsbua.is, um einvígið við Selfyssinga.
Sveinn sagði ekki marga hafa staðið í þeim sporum að leika jafn mikilvæga leiki sem þessa. Þetta væri því mikill og góður skóli fyrir ungu leikmennina í liðinu.
,,Við eigum von á hörkuleik á Selfossi og vonandi fáum við góðan stuðning. Stuðningsmenn okkur munu fjölmenna á leikinn en skipulögð hefur verið hópferð á leikinn og eins munu margir fara á einkabílum. Við getum klárað þetta á Selfossi og með góðum leik og öflugum stuðningi getur allt gerst,“ sagði Sveinn Þorgeirsson.