,,Ég lærði það sjálfur“ var yfirskrift fjölsóttrar ráðstefnu leikskólastarfsfólks borgarinnar sem haldin var á Nordica Holton hótelinu í dag. Þar var fjallað um áhrif markaðssetningar á skólastarf, gildi skráninga og námssagna sem leið til að meta leikskólastarfið, lýðræði og læsi í víðum skilningi.
Hátt í þrjú hundruð leikskólastarfsmenn sátu þessa hálfs dags ráðstefnu þar sem flutt voru fjögur áhugaverð erindi. Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir fjallaði í sínu erindi um gæði og jafnrétti í skólastarfi á tímum markaðsvæðingar. Þar rýndi hún í hugmyndir um að markaðsvæða skólakerfið og hvernig neytendaval getur breytt hugmyndum um skólastarf. Í erindi hennar var komið inn á fjölmargar spurningar sem snúa að jafnrétti barna til náms, lýðræði og gildi fagmennsku og jafnræðis í skólastarfi óháð markaðsöflunum.
Anna Sofia Wahlström sagði frá skemmtilegu E-twinning verkefni í leikskólanum Holti í Reykjanesbæ og rakti hvernig börnin lærðu að lesa umhverfi sitt með skemmtilegum rannsóknarverkefnum. Kristín Karlsdóttir lektor við HÍ sagði frá gildi námssagna barna sem matsaðferð á leikskólastarfinu og Anna Gréta Guðmundsdóttir leikskólakennari í Sæborg rakti nokkur dæmi um gildi skráninga til að meta styrkleika ungra barna í námi og starfi.
Líflegar umræður spunnust í lok ráðstefnunnar og á orðræðan örugglega eftir að skila sér inn í faglegt starf leikskólanna.