Minningar- og friðarstund verður haldin í Viðey fimmtudagskvöldið 7. ágúst. Ljós Friðarsúlunnar verður tendrað í minningu þeirra barna sem látið hafa lífið á síðustu vikum í hinum skelfilegu stríðsátökum. Friðarsinninn og listamaðurinn Yoko Ono tilkynnti fyrir nokkrum dögum að kveikt yrði á Friðarsúlunni af þessu tilefni og mun ljósið loga til morguns.
Í tilkynningu frá Yoko Ono segir:
Kæru vinir,
Við erum öll harmi slegin yfir því að svo mörg saklaus börn hafa látið lífið í átökum Ísrael og Palestínu. Með þeirri von að ofbeldinu linni tafarlaust mun ljós Friðarsúlunnar verða tendrað þann 7. ágúst næstkomandi.
Á undan tendrun friðarljóssins mun Reykjavíkurborg, í samvinnu við Félagið Ísland – Palestína og UNICEF á Íslandi – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, standa fyrir dagskrá í Viðey þar sem þátttakendur sameinast í ósk um varanlegan frið og minnst verður þeirra mörg hundruð barna sem þegar eru orðin fórnarlömb stríðsins.
Dagskrá og fyrirkomulag
Siglingar hefjast frá Skarfabakka kl. 18.30 og er ferjugjaldið kr. 1.100.
Dagskráin við Viðeyjarstofu hefst kl. 19.30. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland – Palestína og Svanhildur Konráðsdóttir, formaður stjórnar UNICEF munu flytja stutt ávörp. Kórinn Graduale Nobili, undir stjórn Jóns Stefánssonar, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskarsson sjá um tónlistarflutning. Ljós Friðarsúlunnar verður tendrað kl. 20.30.
Ljóða- og tónlistardagskrá hefst í Viðeyjarstofu kl. 21.00. Dagskráin ber heitið Tónlist og ljóð leiða von á myrkum tímum og skartar íslenskum og erlendum skáldum og tónlistarmönnum, meðal annars Juan Roman, Kiru Kiru og Mazen Maarouf. Stofan verður opin gestum og gangandi allt kvöldið.
Siglingar í land verða á hálftíma fresti frá kl. 21.00 -23.00.
Allir eru hvattir til að taka þátt í þessari stund sem helguð er minningu og von um frið – t.a.m. með því að kveikja á kertum og senda skilaboð á samfélagsmiðlum og á vefsvæðinu www.imaginepeacetower.com þar sem friðarljósinu verður jafnframt sjónvarpað beint.