Forvarnasjóður Reykjavíkur

Reykjavíkurborg auglýsir eftir umsóknum um styrki til forvarnarverkefna úr Forvarnasjóði Reykjavíkur. Hægt er að sækja um styrki til verkefna í einstökum hverfum eða almennt í borginni. Íbúaráð veita styrki til verkefna í hverfum en velferðarráð til almennra forvarnarverkefna í borginni.

Styrkirnir gefa einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að vinna að forvörnum í borginni. Samkvæmt nýjum úthlutunarreglum geta stofnanir Reykjavíkurborgar eða starfsmenn þeirra sótt um styrki í sjóðinn en einungis í samstarfi við aðra aðila utan Reykjavíkurborgar.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 30. september 2021.

Alls eru 10,7 milljónir króna til úthlutunar árið 2021.

Styrkir úr sjóðnum verða veittir til verkefna sem styðja:

  • Forvarnir í þágu barna og unglinga
  • Eflingu félagsauðs í hverfum borgarinnar
  • Bætta lýðheilsu
  • Markvisst samstarf íbúa, félagasamtaka, og fyrirtækja í þágu forvarna og félagsauðs
  • Önnur verkefni sem mæta þeim markmiðum sem borgarstjórn setur hverju sinni


Almennt um sjóðinn

Hlutverk Forvarnasjóðs Reykjavíkur er að stuðla að forvörnum og efla félagsauð í hverfum Reykjavíkur. Markmið sjóðsins er að styrkja forvarnarverkefni í samræmi við forvarnastefnu Reykjavíkurborgar og veita einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til frumkvæðis og nýsköpunar. Í forvarnastefnunni er m.a. lögð áhersla á að bæta andlega líðan, heilsu og sjálfsmynd barna og unglinga og forvarnir gegn áhættuhegðun. Hlutverk sjóðsins er jafnframt að vinna að eflingu félagsauðs og stuðla að hvers kyns framförum í hverfum borgarinnar.
 

Ferli umsóknar

Allar styrkumsóknir sem ganga þvert á hverfi borgarinnar eru lagðar fyrir samráðshóp um forvarnir í Reykjavík og til umsagnar og samþykktar í velferðarráði. Umsóknir um verkefni í einstökum hverfum fara fyrir íbúaráð til samþykktar. Allir umsækjendur fá skriflegt svar þegar niðurstöður um úthlutun liggja fyrir.

Úthlutunarreglur Forvarnasjóðs Reykjavíkur
Rafræn umsókn á Mínum síðum (Rafræn Reykjavík)
Eyðublað fyrir greinargerð um ráðstöfun styrkfjár
Merki borgarinnar til að setja á kynningarefni


Fyrirspurnir eða ábendingar

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur umsjón með sjóðnum. Senda má fyrirspurnir á netfangið forvarnarsjodur@reykjavik.is.

Upplýsingar um styrki í einstökum hverfum borgarinnar veita framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva velferðarsviðs.

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.