Fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna verður í boði hjá frístundamiðstöðvum og menningarstofnunum borgarinnar í vetrarfríi grunnskólanna 20. og 21. febrúar.
Í vetrarfríinu bjóða frístundamiðstöðvarnar upp á fjölbreytta fjölskyldudagskrá með leikjum, kaffihúsi og tónlist. Menningarstofnanir bjóða fjölskyldum grunnskólabarna frítt inn á sýningar. Þá verður frítt fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra í sundlaugarnar báða vetrarfrísdagana frá kl. 13.-16 og lyftur á skíðasvæðum borgarinnar opna fyrr en venjulega eða kl. 12.00.
Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum má svo bregða sér ókeypis í hringekju.
Gufunesbær – Grafarvogur
Fimmtudagur 20. febrúar
• Kl. 10:00 – 12:00 verður boðið upp á klifur í turninum við Hlöðuna.
• Kl. 11:00 hefst ratleikur við Hlöðuna í Gufunesbæ. Verðlaun fær það lið sem leysir allar þrautir og lýkur leiknum fyrst.
• Kl. 11:00-12:00 Kósí stund í lundinum við Gufunesbæ þar sem gestum verður boðið upp á kakó en þeir geta líka notað eldstæðið til að baka hikebrauð eða grilla sykurpúða.
• Kl. 13:00 Útileikar Gufunesbæjar fyrir alla fjölskylduna.
Föstudagur 21. febrúar
• Kl. 13:00 – 15.00 verður vetrarleyfisskákmót Skákakademíu Reykjavíkur og Gufunesbæjar haldið í Hlöðunni. Grunnskólanemar í 1. – 7. bekk geta tekið þátt í mótinu. Tefldar verða fimm umferðir og er umhugsunartími sex mínútur á skák. Keppendur eru hvattir til að mæta tímanlega til að skrá sig.
Viðburðir í fjölskyldu- og húsdýragarðinum og í menningarstofnunum
Fjölskyldu og húsdýragarðurinn
Það verður margt um að vera í Fjölskyldu-og húsdýragarðinum í vetrarfríinu. Í tenglsum við lífræðilega fjölbreytni verða þrautir um allan garð. Í veitingahúsinu verður tilboð á heitu kaffi / kakó ásamt pönnukökum með rjóma og sultu á 550 kr. Hringekja skreytt norrænu goðunum verður í gangi kl: 13-17 báða dagana og kostar ekkert í hana í vetrarfríinu.
www.mu.is
Landnámssýningin
Fimmtudag 20. og föstudag 21. febrúar.
Leiksvæði Freyju fornleifafræðings – Þar má finna forn leikföng sem má prófa og spreyta sig á ýmsum þrautum.
Ratleikur með rúnum fyrir alla fjölskylduna – Ráða þarf í fornar rúnir og bera kennsl á aldagamla gripi. Að leik loknum má reyna rúnaritun og er skorað alla gesti að reyna að rita nafn sitt með rúnum! Þorir þú að taka áskoruninni?
www.minjasafnreykjavikur.is
Víkin Sjóminjasafn Grandagarði 8
Fimmtudag 20. og föstudag 21. febrúar.
Kl. 11.00-17.00 Skuggalegur ratleikur fyrir fjölskylduna. Hákarlinn Skuggi skelfilegi hefur falið þrautir og vísbendingar um safnið, tekst þér að leysa þær? Ratleikurinn um hákarlinn og hvernig hann var veiddur og nýttur hér á Íslandi fyrr á tímum.
Kl. 13.00 Þrælkun, þroski, þrá? Fjölskylduleiðsögn um ljósmyndasýningu sem að sýnir börn við vinnu til sjós og landi á árunum 1930-1950.
Kl. 15.00 Velkomin um borð! Fjölskylduleiðsögn um borð í Varðskipinu Óðni.
www.sjominjasafn.is
Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Salur: Betur sjá augu. Ljósmyndun Íslenskra kvenna 1872-2013
Skotið: Elo Vázquez, Behind.
Kubburinn: Vincent Malassis, Petites Pauses.
www.ljosmyndasafn.is
Listasafn Reykjavíkur
Fullorðnir í fylgd með börnum fá frítt inn á Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús, Kjarvalsstaði og Ásmundarsafn dagana 20. og 21. febrúar.
Hafnarhús
Augnablik – staður til að staðnæmast kallast nýtt sérhannað rými í Hafnarhúsi sem er hannað fyrir yngri gesti safnsins af Daníel Magnússyni myndlistarmanni.
Kjarvalsstaðir
Föstudag 21. febrúar kl. 13:00-16:00
Hugmyndasmiðja – Berglind Jóna Hlynsdóttir myndlistarmaður leiðir námskeið um vörumerki og lógó í tengslum við sýninguna Harro. Hugmyndasmiðjan hefur þann tilgang að veita börnum og fullorðnum innblástur í skapandi samvinnu við að skoða og rannsaka myndlist, uppgötva eitthvað nýtt og verða fyrir áhrifum af heimi listarinnar.
Menningarmiðstöðin Gerðuberg
Föstudaginn 21. febrúar kl. 14:00
Þetta vilja börnin sjá! – Sýning á myndskreytingum úr íslenskum barnabókum sem komu út á árinu 2013. Anna Margrét Árnadóttir býður börnum og fjölskyldum þeirra upp á líflega leiðsögn um sýninguna.
Laugardagur 22. febrúar kl. 14:00
Café Lingua – Albönsk tunga og menning. Áhugafólk um tungumál, mannlíf og samskipti hittist í kaffihúsinu, fræðist um albanska menningu og spjallar saman.
Sunnudagur 23. febrúar kl. 14-16:00
Óradrög – Bjarni Ólafur Magnússon myndlistarmaður tekur á móti gestum á öllum aldri og gefur þeim innsýn í verk sín.
www.gerduberg.is
Borgarbókasafn
Í vetrarfríinu verða skemmtileg borðspil til afnota fyrir gesti í öllum söfnum Borgarbókasafns. Auk þess er boðið upp á föndursmiðju fyrir alla fjölskylduna í Foldasafni og aðalsafni og bingó í Sólheimasafni. Í Gerðubergssafni er boðið upp á sögustundir á ýmsum tungumálum í samstarfi við samtökin Móðurmál á Alþjóðlega móðurmálsdeginum 21. febrúar. Sjá nánari dagskrá og tímasetningar á heimasíðu Borgarbókasafns www.borgarbokasafn.is.