Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigríður Björk Guðjónsdóttir hittust í Ráðhúsinu í gær til að undirrita bréf sem fjölskyldur fá heimsent ásamt segli, sem minnir á útvistarreglur barna. Frá 1. september eiga öll börn 12 ára og yngri að vera komin heim klukkan átta á kvöldin en þau sem eru 13-16 ára eiga að vera komin heim ekki seinna en tíu.
Markmiðið með útivistarreglunum er að stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir börn og unglinga. Reglurnar eru fyrst og fremst settar til verndar börnum og stuðla að því að þau séu ekki ein og eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur.
Allir foreldrar vilja börnunum sínum það besta. Útivistarreglurnar hjálpa foreldrum að setja börnum sínum mörk og styðja þannig við bakið á foreldrum í uppeldishlutverkinu. Því er full ástæða til að vekja áfram athygli á gildandi reglum og hvetja foreldra til að standa saman að því að reglurnar séu virtar.
Seglarnir ættu að berast fólki í pósti eftir helgi en kjörið er að setja þá á ísskápinn þar sem hann minnir alla í fjölskyldunni á útivistarreglurnar. Reglurnar gilda allan ársins hring og alla daga bæði virka daga, um helgar og hátíðisdaga.