Fjölnismenn þurftu að sigra KR-inga eða ná jafntefli, til þess að tryggja heimaleikjaréttinn gegn Selfossi í umspilinu. KR-ingar rétt misstu af umspilinu í síðustu umferð en þar tapaði liðið gegn Hömrunum.
KR-ingar sitja því sem fastast í 6. sætinu og enginn möguleiki fyrir þá að breyta því í leiknum. Liðin höfðu unnið sitthvorn leikinn gegn hvort öðru fyrir leikinn í kvöld og því bjóst fólk við hörkuleik.
KR-ingar ætluðu að selja sig dýrt í byrjun og komust yfir strax í upphafi. Eftir tíu mínútna leik leiddu þeir með fjórum mörkum gegn tveimur. Þá tóku heimamenn leikhlé og sneru leiknum sér í vil. Fjölnismenn léku vel á næsta kafla og voru komnir í 7:5.
Annar góður kafli hjá KR-ingum minnkaði muninn niður í eitt mark áður en heimamenn gáfu aftur í. Þeir gerðu fimm mörk í röð og leiddu með fimm mörkum í hálfleik 16:11.
Breki Dagsson fór á kostum í liði Fjölnis í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk. Hann var markahæstur heimamanna, ásamt Bjarka Lárussyni en þeir gerðu sjö mörk hvor í dag.
Fjölnismenn gerðu fyrstu sex mörk síðari hálfleiks og því gátu KR-ingar nánast pakkað saman og farið heim, en ellefu marka munur er einfaldlega of mikið. KR-ingar gerðu þó allt hvað þeir gátu til þess að minnka muninn en heimamenn voru svo miklu sterkari.
Lokatölur í Grafarvoginum því 38:22 en eins og áður segir tryggði Fjölnir heimaleikjaréttinn í umspilinu. KR-ingar geta farið að huga að næsta vetri, ætli þeir sér að komast upp.