Meistaraflokkur Fjölnis í kvennaflokki í knattspyrnu mætir Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld kl.20. Stelpurnar gerðu virkilega vel með því að leggja HK/Víking í slagnum um 1. sæti riðilsins á föstudaginn síðasta og geta með sigri í kvöld aukið forskot sitt á toppnum í fimm stig sem væri virkilega sterkt fyrir liðið þar sem það á erfiða útileiki fyrir höndum á lokasprettinum í riðlinum.
Tvö efstu lið riðilsins fara í úrslitakeppni um tvö laus sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili ásamt tveimur efstu liðum B-riðils og stendur Fjölnir virkilega vel í þeirri baráttu nái liðið sigri í kvöld. Haukaliðið er í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig og er einnig í góðum séns á að komast í úrslitakeppnina og má því búast við hörkuleik á Ásvöllum í kvöld.
Fjölnisfólk er hvatt til að mæta í Hafnarfjörðinn í kvöld og hvetja stelpurnar í baráttunni.