Fjölnir og Valur áttust við í Pepsídeild karla í knattspyrnu á Fjölnisvelli í kvöld og lyktaði leiknum með jafntefli, 1-1. Áhorfendur á leiknum voru hátt í eitt þúsund, skilyrði voru ágæt en nokkuð kalt.
Valur komst yfir í leiknum á 78. mínútu og var Kolbeinn Kárason þar að verki þá nýkominn inn á sem varamaður. Fjölnismenn létu ekki slá sig út af laginu og sex mínútum síðar var Einar Karl Ingvarsson búinn að jafna fyrir Grafarvogsliðið. Fjölnir fékk gullið tækifæri til að tryggja sér sigurinn mínútu síðar þegar liðið komst í ákjósanlegt færi en sem rann út í sandinn.
Í fyrri hálfleik skiptust liðin á að sækja en Fjölnir átti hættulegasta tækifærið þegar Þórir Guðjónsson átti hörkuskot í þverslánna. Leikurinn var nokkuð fjörugur á heildina litið og heldur Fjölnir toppsætinu, hefur nú sjö stig af loknum þremur umferðum, og hefur ekki tapað leik.
Þriðju umferð mótsins lýkur á morgun en þá fara fram fimm leikir. Næsti leikur Fjölnis verður á Kópavogsvelli 18. maí þegar liðið mætir Breiðablik.