Þórir Guðjónsson er genginn til liðs við 1. deildarlið Fjölnis frá Val og samdi við Grafarvogsfélagið út árið 2015 í dag. Þórir sem er 22 ára gamall er uppalinn hjá Fram en hóf meistaraflokksferil sinn með Val árið 2010.
Hann var búinn að spila fimm leiki með Val í Pepsi-deildinni í sumar og skora í þeim eitt mark. Hann var síðast í byrjunarliðinu gegn Víkingi Ólafsvík fyrir tíu dögum síðan.
Þórir spilaði með Fjölni sumarið 2012 á láni frá Val og árið þar á undan með Leikni á láni. Hann á að baki 53 meistaraflokksleiki og skorað í þeim sex mörk.
Fjölnir er í 5. sæti 1. deildar með 21 stig, en aðeins fjórum stigum frá toppnum þegar tólf umferðir eru búnar.