Íbúar í Reykjavík hafa enn eitt árið sýnt hvað þeir eru hugmyndaríkir og lýðræðissinnaðir. Borgarbúar settu samtals inn 690 hugmyndir að verkefnum í hverfum Reykjavíkur á samráðsvefinn Betri Reykjavík. Söfnun hugmynda fyrir verkefnið Betri hverfi 2015 lauk 7. nóvember.
Íbúar geta nú skoðað allar hugmyndirnar inni á vefsvæðinu Betri hverfi 2015 á Betri Reykjavík og tekið þátt í rökræðum með eða á móti þeim. Þá geta þeir deilt hugmyndum á samfélagsmiðlum og beðið fólk um að styðja tilteknar hugmyndir. Reykjavíkurborg hvetur íbúa í hverfum borgarinnar til að heimsækja vefinn og ræða þær hugmyndir sem þar er að finna. www.betrireykjavik.is
Vinna er hafin hjá sérstöku fagteymi Reykjavíkurborgar við að fara yfir allar innsendar hugmyndir og meta hvort þær séu framkvæmanlegar eða ekki. Margt getur spilað þar inn í. Verið getur að sumar hugmyndir séu of dýrar í framkvæmd til að rúmast innan verkefnisins eða að ómögulegt sé að framkvæma þær á landi sem ekki er eign borgarinnar. Hverfisráð borgarinnar koma einnig að þessu vali.
Á endanum verður þeim hugmyndum sem þykja góðar og gildar stillt upp til hverfakosninga en til stendur að halda þær í febrúar með sama sniði og fyrri ár. Íbúar þurfa þó ekki að örvænta um afdrif hugmynda sinna því þær lifa áfram á vefnum og hafa verið metnar af borginni. Dýrmætar hugmyndir fara því alls ekki til spillis.
Stöðugt innstreymi hugmynda
Þetta er í fjórða skiptið sem íbúar senda inn hugmyndir að Betri hverfum og hafa um 1.900 hugmyndir að verkefnum í hverfunum verið sendar inn. Þetta er fyrir utan stöðugt innstreymi hugmynda á samráðsvefinn Betri Reykjavík en hugmyndir þar skipta nú orðið þúsundum.
Í ár heimsóttu vefinn 13,525 einstaklingar á þeim mánuði sem tekið var við hugmyndum fyrir Betri hverfi 2015 sem er 3.06% aukning frá því í fyrra þegar 13,024 einstaklingar komu í heimsókn á vefinn. Aukning í fjölda hugmynda er 21%
Hverfakosningar i febrúar 2015
Reykjavíkurborg hefur nú framkvæmt nær 300 hugmyndir sem íbúar hafa sent inn í öllum hverfum borgarinnar eftir úrslit hverfakosninga. Í mars á þessu ári kusu íbúar í Reykjavík 78 verkefni til framkvæmda. Meirihluti þeirra hafa þegar verið framkvæmd, önnur eru á lokastigi framkvæmdar og örfá stærri verkefni eru enn á undirbúningsstigi.
Hverfakosningar um Betri hverfi 2015 verða haldnar í febrúar á næsta ári. Borgin leggur 300 milljónir króna til verkefna sem íbúar kjósa.
Reykjavíkurborg þakkar öllum hugmyndasmiðum kærlega fyrir innleggin.