Borgarbókasafnið mun flytja í stærra og mun hentugra húsnæði miðsvæðis í Grafarvogi ef samningar takast um leigu á húsnæði fyrir safnið í Spönginni.
Borgarráð hefur heimilað skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til samningaviðræðna um leigu á húsnæði í Spöng í Grafarvogi fyrir útibú Borgarbókasafnsins. Útibú safnsins hefur verið í þröngu og óhentugu húsnæði í Grafarvogskirkju og hefur staðið til um nokkurn tíma að finna safninu hentugra húsnæði svo það geti þjónað þessu fjölmenna hverfi.
Hentugt húsnæði er laust til leigu við Spöngina 41 en það er í eigu fasteignafélagsins Reita og hýsti áður líkamsræktarstöð World Class, sem hefur flutt í Egilshöll. Húsnæðið er afar vel í sveit sett fyrir bókasafn, staðsett í verslunarmiðstöðinni í Spönginni miðsvæðis í hverfinu. Aðgengi að húsinu er mjög gott, bæði fyrir unga sem aldna en hitalagnir eru í gangstéttum við húsið sem gerir aðgengi enn betra.
Nokkrir skólar eru í nágrenninu, t.a.m. Borgarholtsskóli en Spöngin er mitt á milli fjögurra grunnskólahverfa í Grafarvogi. Heilsugæslustöð er í næsta húsi. Þá opnaði ný félagsmiðstöð á vegum Reykjavíkurborgar í húsinu númer 43 um síðustu helgi. Hefur félagsmiðstöðin hlotið nafnið Borgir. Staðsetning fyrir bókasafn getur því ekki verið betri í þessu víðfeðma hverfi.
Nýtt húsnæði fyrir Borgarbókasafnið á þessum stað mun styðja við þá framtíðarsýn safnsins að vera miðstöð fjölmenningar, barnamenningar og alþýðumenningar í hverfum borgarinnar, auk þess að þjóna gestum og gangandi sem bókasafn, íverustaður og félagsmiðstöð.
Borgarbókasafnið rekur í dag útibú í kjallara Grafarvogskirkju sem þjónar öllum Grafarvogi. Húsnæðið er um 702 fermetrar og var opnað 1996. Það húsnæði er að mörgu leyti óhentugt fyrir rekstur bókasafns. Stærsti ókosturinn er staðsetningin en Grafarvogskirkja er í útjaðri hverfisins og aðkoma að safninu er erfið. Ný staðsetning safnsins mun gjörbreyta allri aðstöðu safnsins til hins betra fyrir íbúa Grafarvogs.