Átakinu Göngum í skólann var hrundið af stað í vikunni af Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Meginmarkmið verkefnisins eru að hvetja nemendur og aðstandendur þeirra til að nota vistvæna samgöngumáta; ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla.
Göngum í skólann er alþjóðlegt verkefni til að vekja börn og ungmenni til umhugsunar um vistvæna samgöngumáta og þá í október. Vegna aðstæðna hérlendis hefur undirbúningshópur verkefnisins ákveðið að hvetja skóla til að byrja verkefnið í september og ljúka því á alþjóðlega göngum í skólann deginum í byrjun október.
Markmið átaksins eru:
- Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
- Heilbrigður lífsstíll fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.
- Minni umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft og öruggari og friðsælli götur og hverfi.
- Vitundarvakning um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst.
- Kennir reglur um öryggi á göngu og hjóli.
Hátt í hundrað íslenskir skólar hafa skráð sig til leiks í þessu átaki og enn hægt að skrá sig. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur umsjón með þessu líflega verkefni en aðrir samstarfsaðilar eru: Samgöngustofa, Embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóli og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.
Nánari upplýsingar á www,gongumiskolann.is