,,Við vorum meðvitaðir um að við þyrftum að vinna báða síðustu leikina, sá fyrri er komin í höfn og síðasti leikurinn býður okkur næsta laugardag. Leikurinn við Leikni verður hreinn úrslitaleikur fyrir okkur. Mér fannst við leika betur í dag í síðari hálfleik og þá var betra skipulag á okkar leik. Það var fyrir öllu að vinna. Við réðum ferðinni í síðari hálfleik en þá var góð vinnsla á liðinu og sigurinn öruggur,“ sagði Ágúst Þór Gylfason í spjalli eftir sigurinn á Selfyssingum á Fjölnisvelli í dag.
Ágúst Þór sagði að búið væri að byggja upp gott sjálfstraust í liðinu. Hann sagði góðan stíganda í liðinu í allt sumar og liðsheildin hefði á sama tíma eflst með hverjum leik.
,,Við erum brattir og sjálfstraustið er gott. Leikurinn um næstu helgi er allt eða ekkert. Það þarf ekkert að ræða það það frekar. Ekkert annað en sigur kemur til greina og eiga Leikni eftir í lokaumferðinni er ekkert auðvelt. Af þeim liðum sem eiga möguleika á sæti í efstu deild þá eigum við erfiðasta leikinn eftir. Við högum undirbúningi ekkert öðru vísi fyrir leikinn gegn Leikni, notum vikuna vel til að leggja línurnar og gera okkar besta þegar út í slaginn er komið. Markmið okkar fyrir tímabilið var að fara upp í efsta deild og vonandi ganga þau markmið eftir. Þetta er alfarið í okkar höndum. Það er stór laugardagur fyrir höndum og það verður gaman að mæta í Breiðholtið þar sem ég ólst upp og mæta þar gömlum félögum,“ sagði Ágúst Þór Gylfason í spjallinu við Grafarvogsbúa.is.
Myndir frá leiknum...